Bóluefnið mögulega óheppilegast fyrir ungar konur

Bóluefni AstraZeneca hefur fengið grænt ljós frá Lyfjastofnun Evrópu. Staðan …
Bóluefni AstraZeneca hefur fengið grænt ljós frá Lyfjastofnun Evrópu. Staðan er ekki hin sama hér á landi. AFP

Til skoðunar er að afmarka betur þann hóp sem getur fengið bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 hérlendis. Blóðsegavandamál hafa helst komið upp hjá ungum konum, yngri en 55 ára, eftir bólusetningu með efninu. Því getur verið að bóluefnið verði frekar gefið eldri konum og karlmönnum, ef í ljós kemur að þeir hópar séu ekki í áhættu.

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, í samtali við mbl.is.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhaldandi notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19 hér á landi en hlé var gert á notkun þess í síðustu viku þegar upp komu áhyggjur um að það gæti valdið blóðtöppum. Í gær gaf Lyfjastofnun Evrópu það formlega út að bóluefnið væri öruggt. Ákvörðun um áframhaldandi notkun hérlendis verður tekin síðar í dag.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Gætu afmarkað bólusetningarhópinn betur

Þórólfur segir að hann hafi fundað stíft með kollegum sínum erlendis um málið í gær. Á Norðurlöndunum er nú til skoðunar hvort möguleiki sé á að finna áhættuhópinn fyrir blóðsegamyndun og þá sleppa bólusetningu með efninu hjá þeim en bjóða öðrum hópum sem ekki eru í áhættuhópum að fá bólusetningu.

„Það er að sjást bæði á Norðurlöndunum og í Evrópu í þessu uppgjöri að þetta blóðsegavandamál og blæðingar eru fyrst og fremst að sjást hjá konum sem eru yngri en 55 ára. Það þarf aðeins að gera það betur upp, hvort þetta þýði að karlmenn séu ekki í áhættu eða konur í öðrum aldurshópum. Við getum þá reynt að afmarka betur hópinn sem fær þetta AstraZeneca bóluefni og er ekki í neinni áhættu fyrir svona aukaverkanir,“ segir Þórólfur.

Tengsl blóðtappa og Covid-19 þekkt

Aðspurður segir hann að Covid-19 geti almennt valdið blóðtöppum. Áhættan á slíku sé mun meiri hjá þeim sem fá Covid-19 en þeim sem fá bólusetningu.

„Það má ekki gleyma því að Covid sjálft getur valdið svona vandamálum þannig að ef allir fengju Covid þá yrði áhættan mun meiri, “ segir Þórólfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka