Sá sem greindist smitaður af Covid-19 utan sóttkvíar á miðvikudag reyndist vera með breska afbrigði veirunnar. Smitið virðist tengjast hópsmitinu sem kom upp fyrir um tveimur vikum. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
„Það eru ákveðin líkindi til þess að þetta tengist eða líkist mjög breska afbrigðinu sem sást í hópsmitinu fyrir um tveimur vikum. En nákvæmlega hvernig þetta tengist er ekki alveg ljóst,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann að það séu engin skýr tengsl á milli þeirra sem smituðust fyrir um tveimur vikum og smitsins sem greindist á miðvikudag.
Það hlýtur að vera frekar slæmt?
„Já. Það hefði verið miklu betra ef við hefðum getað séð tengslin nákvæmlega og hvernig þetta væri vegna þess að að ef engin tengsl eru þá eru einhverjir millliliðir, einhverjir sem hafa fengið veiruna en við höfum ekki fundið enn þá. Það er verið að skima mikið í kringum þennan einstakling og hugsanlega mun það skýra málið frekar.“