„Litakóðunarkerfið er ekki fullkomið en þá erum við að fara eftir stöðunni í öðrum löndum,“ sagði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð ferðamálaráðherra þar sem hún og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ræddu nýjar ráðstafanir á landamærum vegna kórónuveirufaraldursins.
Ráðherrarnir ræddu málin í beinu streymi á Facebook og fóru að mestu leyti yfir ákvörðun stjórnvalda um að heimila þjóðum utan Schengen-samstarfsins að koma til landsins á ný hafi fólk þaðan gild bóluefnavottorð.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra staðfesti í vikunni að 1. maí verði breytt fyrirkomulag við móttöku fólks á landamærum Íslands. Ráðstafanirnar felast í því að miða við litakóðunarkerfi á áhættunni sem stafar frá farþegum frá ólíkum löndum miðað við ástand faraldursins í landinu.
Eins og litakóðunin lítur út núna ættu íbúar grænna og appelsínugulra landa að geta sloppið við hluta þeirra sóttvarnaráðstafana sem gilda við komuna til landsins.
Þótt heilbrigðisráðherra hafi staðfest í vikunni að litakóðunarkerfið tæki gildi 1. maí sagði Þórdís Kolbrún að ákvörðun um slíkt hafi verið tekin í janúar, þegar lítið var vitað um framgang bólusetninga.
„Ef 1. maí væri á morgun yrði engin breyting á landamærunum,“ sagði Þórdís Kolbrún og bætti við að þá yrði áfram gerð krafa um PCR-próf og tvær skimanir hjá fólki við komuna til landsins.