Frekari rannsóknir tefja bólusetningarákvörðun

Lyfjastofnun Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að bólu­efni AstraZeneca …
Lyfjastofnun Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að bólu­efni AstraZeneca er ör­uggt og veitir mikla vernd gegn Covid-19. AFP

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segir frekari rannsóknir vera ástæðu þess að ákvörðun um áframhaldandi bólusetningu með bóluefni AstraZeneca tefst fram til næstu viku.

„Við viljum fara aðeins betur yfir okkar gögn, og ráðfæra okkur nánar við nágrannaþjóðir okkar, sérstaklega Norðurlandaþjóðirnar,“ segir Kjartan við mbl.is.

Mikilvægt sé að bera saman bækur í svona málum, og vill landlæknisembættið taka ákvörðun sem byggist á öllum þeim gögnum sem hægt er að fá um bóluefnið, að hans sögn.

„Við vissum að kollegar okkar á Norðurlöndunum vildu gefa sér aðeins lengri tíma til að fara yfir málið, og við erum sama sinnis.“

Nýtt blóðtappatilfelli hefur áhrif

Frestun ákvörðunarinnar stafar að einhverju leyti af nýrri tilkynningu sem barst Lyfjastofnun um mögu­lega al­var­lega auka­verk­un í kjöl­far bólu­setn­ing­ar með bólu­efni AstraZeneca, segir Kjartan aðspurður, en ein­stak­ling­ur liggur nú á spít­ala vegna blóðtappa í lung­um og er í lífs­hættu.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis. Ljósmynd/Aðsend

„Allt sem kemur upp í tengslum við bólusetninguna, eins og atvikið í dag, hefur áhrif á þá vinnu sem er í gangi.“ Hann segir það atvik þó ekki hafa haft úrslitaáhrif.

„Þetta er bara önnur breyta sem er tekin inn í dæmið sem við erum að leggja upp.“

Ákvörðun liggi vonandi fyrir um miðja næstu viku

Umfangsmikil vísindavinna er nú fram undan hjá embættinu við yfirferð gagna. 

„Við viljum komast að því hversu algengt þetta er í þýðinu almennt og það tekur smá tíma, en auðvitað er allt kapp lagt á að klára þetta sem fyrst,“ segir Kjartan.

Hann gerir ráð fyrir að ákvörðun um áframhaldandi notkun bóluefnisins muni liggja fyrir um miðja næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert