Hægt að sækja PCR-vottorð í símann

Nú verður hægt að sækja PCR-vottorðin í símann.
Nú verður hægt að sækja PCR-vottorðin í símann. mbl.is/Golli

Kerfisbreytingar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gera nú ferðalöngum auðveldara um vik þar sem nú er hægt að sækja vottorð um neikvætt PCR-próf gegn Covid-19 í gegnum símann.

„Það að þjónustan sé nú rafræn munar miklu fyrir okkur,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en mikið álag hefur verið á stofnuninni vegna skriffinnskunnar sem fylgdi vottorðunum fyrrnefndu.

„Fólk fer inn á þennan vef og skráir sig í kerfið og það látið gefa upp hvenær það hentar að fara í sýnatökuna, það er að segja sem styst áður en haldið er utan,“ segir Óskar í samtali við mbl.is.

Þarf ekki íslenska kennitölu

Því næst er gefið upp símanúmer, netfang og hlutaðeigandi fær boð í sýnatöku en rannsóknarniðurstöður berast nokkrum klukkustundum síðar og vottorð í kjölfarið, fjölþjóðlegt eða alþjóðlegt, ef prófið er neikvætt.

„Það er alveg á hreinu að allir geta fengið vottorð,“ segir Óskar og bætir við að ekki sé krafist íslenskrar kennitölu til þess að menn geti orðið sér úti um vottorð.

Þá bendir hann á að hægt er að óska eftir prentuðu vottorði en slíkt kostar aukalega. „Fólk hefur alltaf þurft að mæta á heilsugæsluna eða læknavaktina en það er ekki þannig lengur,“ segir hann að lokum.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert