Hafa lagt hald á skotvopnið

Albanskur maður var myrtur á heimili sínu í Rauðagerði um …
Albanskur maður var myrtur á heimili sínu í Rauðagerði um miðjan febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur sig hafa fundið skotvopnið sem notað var þegar Arm­ando Bequiri var skot­inn til bana fyr­ir utan heim­ili sitt í Rauðagerði laug­ar­dags­kvöldið 13. fe­brú­ar.

Þetta segir Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

„Eftir bráðabirgðaniðurstöðu sérfræðinga má áætla að svo sé; að þetta sé vopnið sem var notað í þessu tilviki,“ segir Margeir. Hann vill ekkert tjá sig um hvenær lögreglan lagði hald á vopnið eða neitt nánar um það.

Bequiri hlaut níu skotáverka, meðal ann­ars á lífs­nauðsyn­leg líf­færi, höfuð og bol, sam­kvæmt bráðabirgðaskýrslu rétt­ar­meina­fræðings vegna rétt­ar­krufn­ing­ar.

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hand­tók fjóra og gerði hús­leit á sex stöðum í um­dæm­inu og utan þess í gærmorgun en aðgerðirnar tengjast rannsókninni á morðinu í Rauðagerði.

Margeir segir að fólkinu sem handtekið var í gær hafi verið sleppt að loknum skýrslutökum og að rannsókn málsins miði almennt vel.

Lögregla telur að manndrápið hafi verið framið í sam­verknaði nokk­urra og jafn­vel með hlut­deild annarra líkt og gögn og um­fang máls­ins bera með sér. Margeir segir að lögreglan telji sig vera með þá aðila sem komi hvað mest að málinu; meðal annars þann sem framdi morðið.

Lands­rétt­ur staðfesti á dög­un­um úr­sk­urð Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að fella úr gildi skip­un Stein­bergs Finnbogasonar, verj­anda eina Íslend­ings­ins sem er sak­born­ing­ur í mál­inu. Steinbergur segir að aðkoman hafi verið í fullu samræmi við starfsskyldur verjanda og sakar lögreglu um ljótan leik.

Margeir gefur lítið fyrir þau ummæli og segir að það hljóti að svara gagnrýninni þegar lögregla gerði kröfuna um að fella úr gildi skipun Steinbergs og héraðsdómur og Landsréttur staðfestu hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert