Búið er að fara yfir valmöguleika yfir húsnæði sem hægt er að færa starf Fossvogsskóla í og ágætismynd komin á þá stöðu, að sögn Skúla Helgasonar, formanns skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Hann gerir ráð fyrir að geta kynnt niðurstöðu um nýja staðsetningu í dag. Litið er til þess að nýta skólahúsnæði í eigu borgarinnar.
Skúli segir að verkefnið fram undan varðandi mál Fossvogsskóla sé þríþætt; í fyrsta lagi að færa skólastarfið í annað húsnæði tímabundið, í öðru lagi að greina og takast á við heilsufarsvanda barnahópsins með aðstoð fagfólks Barnaspítalans og í þriðja lagi að fá nýtt teymi sérfræðinga til að fara ítarlega yfir húsnæði skólans og leggja til frekari aðgerðir til að komast að rót vandans.
Á miðvikudaginn greindi mbl.is frá því að móðir sem ákvað að taka sjö ára son sinn úr skólanum eftir mikil veikindi hafi ekki áttað sig á tengslunum við mygluna í skólanum enda hafi vandamálið verið talað niður og frekar talað um hversu mikið hafði verið gert fyrir skólahúsnæðið.
Einnig hefur verið greint frá því að niðurstaða Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur, doktors í sveppafræðum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og helsta sérfræðings landsins í innanhúsmyglu, um að uppsprettu myglu [mygluvöxt] væri að finna í skólahúsnæðinu hafi legið fyrir seinni hluta janúar. Rétt er að geta þess að minnisblaðið hafði ekki verið birt í framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar fyrir framkvæmdir í Fossvogsskóla og hefur enn ekki verið birt.
Þann 22. febrúar síðastliðinn sagði Helgi Grímsson, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs, í samtali við mbl.is að mikilvægt væri að líta til þess að einungis væri um myglugró að ræða í húsi Fossvogsskóla, ekki mygluvöxt. Muninum lýsti hann eins og muni á blómi og fræi. Þá hafði álit Guðríðar Gyðu legið fyrir í um mánuð.
Spurður út í þetta misræmi og hvers vegna því hefði verið neitað að um mygluuppsprettu í húsinu væri að ræða segir Skúli að hann sé þeirrar skoðunar að staðan sýni að það þurfi að fara dýpra í að rýna húsnæðið.
Ekki fengust svör við því hvers vegna foreldrar voru ekki upplýstir um mat sérfræðingsins sem hafði legið fyrir í nokkurn tíma né hvers vegna haldið hefur verið fram að ekki sé um mygluvöxt að ræða.
Skúli segir að afstaða foreldra sem kom fram á foreldrafundi í fyrradag og var ítrekuð með undirskriftalista þess efnis að starfsemi skólans yrði færð sé ný og brugðist hafi verið við henni.
„Það er það sem var nýtt við stöðuna í gær,“ sagði Skúli og bætti við að vilji foreldra hafi ekki legið ljóst fyrir fyrr en í gær „Síðan kemur þessi eindregna skoðun og ósk um að finna starfseminni annað stað, mér finnst það vera okkar skylda að hlusta á það.“