Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í dag sakfelldir í CLN-málinu svokallaða, en það hefur einnig verið kallað Chesterfield-málið. Áður höfðu þeir verið sýknaðir í héraði við endurupptöku málsins, en Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var sýknaður á báðum dómstigum.
Hreiðari og Magnúsi var ekki gerð refsing, þar sem þeir höfðu áður hlotið hámarksrefsingu fyrir efnahagsbrot í fyrri málum sem tengdust fjármálahruninu árið 2008. Dómurinn, sem nú hefur verið birtur á vef Landsréttar, er ítarlegur, eða upp á 80 blaðsíður.
Í dómi Landsréttar segir að þegar lánveitingar, sem ákært er fyrir í þremur liðum ákærunnar, hafi átt sér stað hafi ekki legið fyrir lánsbeiðnir eða samþykki lánanefnda bankans. Þá hafi félögin sem lánað var ekki verið metin til lánshæfis og engar tryggingar settar fyrir endurgreiðslu lánanna. „Lánveitingarnar hefðu því stangast á við reglur bankans og verið með öllu óheimilar,“ segir í útdrætti dómsins. Í öðrum ákærulið í málinu, þar sem lánsbeiðni lá aftur á móti fyrir og málið var tekið fyrir í lánanefnd samstæðunnar, hafi lánabeiðninni verið vísað til lánanefndar stjórnar. Lánið hafi hins vegar verið greitt út án þess að samþykki þeirrar nefndar hafi legið fyrir. „Lánveitingin hefði þar af leiðandi verið óheimil samkvæmt regluhandbók,“ segir í útdrættinum.
Þeim Hreiðari og Magnúsi var jafnframt gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Landsrétti, en Hreiðar þarf að greiða 5,1 milljón og Magnús 4,5 milljónir. Málsvarnarlaun lögmanns Sigurðar upp á 3,9 milljónir greiðast úr ríkissjóði. áður hafði Hreiðar þurft að greiða 5,6 milljónir í málskostnað fyrir héraði og Magnús 3,8 milljónir. Kostnaður Sigurðar upp á 3,7 milljónir fyrir héraði er einnig greiddur úr ríkissjóði.
Málið var flutt fyrir Landsrétti um miðjan febrúar, en samtals voru spilaðar 10,5 klukkustundir af upptökum auk málflutnings saksóknara og verjenda.
Málið hefur farið fram og aftur í dómkerfinu undanfarin 5-6 ár, fyrri dómur ógiltur, málinu vísað frá og svo aftur tekið á dagskrá.
Í málinu voru þeir Hreiðar Már, Sigurður og Magnús ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá bankanum og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga með nánar tilgreindum hætti.
Fjárhæðir lánanna sem um ræðir námu rúmlega 508 milljónum evra og voru veitt á tímabilinu ágúst til október 2008 en lánin voru samkvæmt ákæru notuð til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank sem tengd voru skuldatrygingaálagi Kaupþings með það að markmiði að lækka skuldatryggingaálagið.
Upphaflega var málið flutt í lok árs 2015 og féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun árs 2016. Voru þremenningarnir þá sýknaðir. Áfrýjaði ákæruvaldið málinu til Hæstaréttar, en á þeim tíma hafði Landsréttur ekki tekið til starfa.
Eftir að héraðsdómur gekk um málið komu fram upplýsingar um samkomulög sem gerð höfðu verið um greiðslur til Kaupþings annars vegar og eingarhaldsfélaganna Chesterfield United of Partridge Management Group hins vegar en á grundvelli samkomulagsins var hætt við málshöfðun aðilanna gegn Deutsche Bank. Var talið að greiðslurnar kæmu frá Deutsche bank. Samkomulagið hljóðaði upp á 425 milljónir evra en af þeirri fjárhæð áttu 400 milljónir evra að renna til Kaupþings.
Þremenningarnir vildu að málinu yrði vísað frá vegna þessara upplýsinga, en Hæstiréttur féllst ekki á þá kröfu. Taldi Hæstiréttur hins vegar að frekari rannsókn þyrfti að fara fram um ástæður þess að greiðslan átti sér stað. Var málinu því vísað aftur til aðalmeðferðar í hérað.
Eftir rannsókn ákæruvaldsins, þar sem litlar upplýsingar komu fram, var málið tekið fyrir í héraði. Héraðsdómur tók þá undir röksemdir þremenninganna um að þessar nýju upplýsingar hefðu ekki verið rannsakaðar nægjanlega vel. Var málinu þá vísað frá. Landsréttur sneri þeirri frávísun við og sagði héraðsdómi að taka málið til efnislegrar meðferðar. Var vísað til þess að ákæruvaldið taldi samkomulagið milli Deutsche bank, Kaupþings og félaganna tveggja ekki hafa þýðingu fyrir grundvöll málsins um hvort skilyrði fyrir umboðssvikum hafi verið fyrir hendi.
Niðurstaða héraðsdóms lá fyrir í júlí 2019 og var þá sýknað, líkt og gert var árið 2016. Var það niðurstaða dómsins að ósannað væri að ásetningur ákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar, hafi staðið til þess að misnota aðstöðu sína í auðgunarskyni með því að veita lán þau sem rakin voru í ákærunni.
Ákæruvaldið áfrýjaði niðurstöðunni svo til Landsréttar og féll dómur þar svo loks í dag, eftir að það hafi beðið þess að komast á dagskrá í um eitt og hálft ár.