Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði bæði Reykjanesbraut við Straumsvík og Krýsuvíkurvegi eftir að fréttist að eldgos væri hafið í Fagradalsfjalli. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri í Hafnarfirði, segir í samtali við mbl.is að stríður straumur hafi verið úr höfuðborginni og hafi stefnt í öngþveiti.
„Umferðalokanir voru fyrsta viðbragð,“ segir hann og bætir við að þessum leiðum hafi verið lokað meðan náð sé utan um málið og til hvaða viðbragða þurfi að grípa.
Spurður út í frekari verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir Skúli: „Við erum einnig stuðningur við Suðurnes. Þetta er í næsta umdæmi.“
Aðgerðastjórn á höfuðborgarsvæðinu fundar þessa stundina.