Met slegið í umsóknum og styrkjum

Nokkrar bækur sem hafa fengið styrk í gegnum tíðina.
Nokkrar bækur sem hafa fengið styrk í gegnum tíðina. Ljósmynd/Miðstöð íslenskra bókmennta

Nýtt met hefur verið slegið í fjölda umsókna og veittra styrkja til þýðinga íslenskra bókmennta á erlend mál samkvæmt upplýsingum frá Miðstöð íslenskra bókmennta.

108 umsóknir bárust frá erlendum útgefendum í þessari fyrri úthlutun ársins til þýðinga úr íslensku á erlend mál og er þetta langmesti fjöldi umsókna um þýðingarstyrki sem borist hefur við eina úthlutun. Þar af voru 20 umsóknir til þýðinga á norræn mál.

Til samanburðar voru umsóknir um þýðingarstyrki alls 70 í fyrri úthlutun ársins 2020 og er þetta því 54% fjölgun umsókna milli ára.

Miðstöðin veitti nú styrki til 87 þýðinga úr íslensku á 28 tungumál og þar af eru 18 styrkir vegna norrænna þýðinga. Á sama tíma í fyrra voru veittir 62 þýðingarstyrkir.

Styrkirnir nú eru meðal annars veittir til þýðinga úr íslensku á ensku, hollensku, sænsku, ítölsku, rússnesku, ungversku, færeysku og japönsku. 

„Þessa aukningu umsókna um þýðingarstyrki má að hluta til rekja til norræns átaks sem blásið var til í kjölfar heimsfaraldursins en einnig má sjá greinilegan og sífellt meiri áhuga á íslenskum bókmenntum erlendis á síðustu misserum. Þetta er sérstaklega áhugavert og ánægjulegt í ljósi ástandsins í heiminum þar sem hefðbundnar leiðir til bókakynninga hafa legið niðri, s.s. bókmenntahátíðir, bókamessur, ferðalög höfunda, upplestrar og fleira,“ segir á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert