Minnir á möguleikann á sjávargosi

Skjálftavirkni hefur verið vestur af Reykjanestá í dag í fyrsta …
Skjálftavirkni hefur verið vestur af Reykjanestá í dag í fyrsta sinn í nokkurn tíma. Svæðið er þó þekkt skjálftasvæði. Myndin er af Garðskagavita. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skjálftahrina sem hófst vestur af Reykjanestá undir morgun er nýr kafli í sögu jarðhræringanna á Reykjanesskaga, sem staðið hafa yfir frá því í lok árs 2019. Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

„Þessar hrinur eru búnar að hlaupa fram og til baka eftir flekaskilunum alveg síðan í desember 2019,“ segir Páll. Langstærst þeirra er hrinan sem hófst fyrir þremur vikum og hefur að mestu haldið sig í námunda við Fagradalsfjall.

Um klukkan 4:30 í morgun hófst hrina hins vegar vestan af Reykjanestá og mældust um 150 skjálftar á svæðinu á nokkurra klukkustunda tímabili, þar af tíu yfir 3 að stærð. Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, bendir á að þótt ekki hafi mælst skjálftar á þessu svæði á liðnum vikum hafi verið nokkuð um skjálfta á þessu svæði fyrir rétt um ári, í mars 2020, þegar kvikuinnskot urðu við fjallið Þorbjörn.

Virkni við Fagradalsfjall hefur farið minnkandi síðustu tvo daga, en hins vegar sé ljóst að virknin á skaganum sé i fullum gangi.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert bendir til kvikusöfnunar undir sjávarbotni

Hraunflæðilíkön vísindamanna hafa ekki tekið breytingum síðustu daga og enn er líklegasta gossvæðið talið norðaustan við Fagradalsfjall, það er ef af gosi verður. Ekki er því talin sérstök hætta, sem stendur, á gosi undan ströndum en að sögn Bryndísar hefur ekkert kvikuinnskot mælst á svæðinu og skjálftarnir aðeins „tektónískir“.

Páll segir þó að skjálftarnir undan ströndum séu áminning um að ekki sé útilokað að gjósi undir sjávarbotni.

„Það er ein sviðsmynd og hún er miklu verri en það sem við höfum verið að líta á hingað til,“ segir Páll. Þegar kvika kemst í tæri við vatn springur hún og getur því valdið ösku- eða sprengigosi með tilheyrandi áhrifum á flugsamgöngur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert