Mun fleiri skammtar á leið til landsins

Frá bólusetningu eldri borgara í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu eldri borgara í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við áætlanir eru mun fleiri skammtar af bóluefni gegn Covid-19 á leið til landsins frá miðjum mars og til loka aprílmánaðar en hafa komið til landsins það sem af er ári. Rúmlega 50.000 skammtar hafa nú þegar verið gefnir og því má gera ráð fyrir því að skammtarnir sem koma frá miðjum mars og til loka aprílmánaðar verði töluvert fleiri en 50.000 talsins, þótt tölur yfir skammtafjölda í mánuðinum hafi ekki verið gefnar út opinberlega. 

Distica, fyrirtækið sem sér um dreifingu bóluefnisins, er komið með afhendingaráætlun út apríl í hendurnar. Um 1.300 skammtar af bóluefni AstraZeneca sitja nú óhreyfðir í húsnæði fyrirtækisins vegna hlés sem gert var á notkun þess hér á landi. 

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, segir að starfsmenn fyrirtækisins séu tilbúnir í að stökkva til og dreifa bóluefni AstraZeneca ef notkun þess verður heimiluð hér á landi að nýju. Sóttvarnalæknir greindi frá því í morgun að ákvörðunar um það væri að vænta síðar í dag. 

„Þetta hefur ekki mikil áhrif á okkur. Við erum ekki að dreifa því sem kemur til landsins en bíðum bara eftir frekari fyrirmælum um hvað skal gera,“ segir Júlía Rós, spurð hvort hléið sem gert var á notkun bóluefnisins í síðustu viku hafi áhrif á fyrirtækið. 

Skv. upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu gera samningar Íslands og Moderna ráð …
Skv. upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu gera samningar Íslands og Moderna ráð fyrir því að 28.000 skammtar komi frá fyrirtækinu á öðrum ársfjórðungi og 72.000 á þeim þriðja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

1.300 skammtar af bóluefni AstraZeneca óhreyfðir

1.300 skammtar af bóluefni AstraZeneca komu til landsins þann 13. mars en þeim skömmtum hefur ekki verið dreift. Júlía segir lítið mál að geyma efnið enda þarf ekki að geyma það við jafn mikinn kulda og bóluefni Moderna og Pfizer/BioNTech. Distica tekur áfram á móti þeim skömmtum sem koma frá AstraZeneca til landsins en bíður með dreifingu þar til fyrirmæli um annað hafa verið gefin út.

„Þetta eru ekki margir skammtar sem koma í einu svo við höfum nóg pláss til þess að geyma þetta,“ segir Júlía Rós. 

Engir skammtar af bóluefni AstraZeneca hafa farið til spillis hjá Distica vegna hlésins en eins og áður hefur komið fram í fréttum þurfti að farga um 100 skömmtum af bóluefninu hjá Landspítala þar sem bóluefnið hafði verið blandað þegar tilkynning um hlé á notkun þess var gefin út. Ákvörðun um hléið var tekin vegna ótta um tengsl á milli bóluefnisins og blóðtappa. 

„Þetta er töluverð aukning“

Sendingar af bóluefnum gegn Covid-19 fara nú stækkandi og er von á nokkuð mörgum skömmtum frá miðjum mars og til loka aprílmánaðar þó að Júlía Rós gefi ekki upp fjöldann. „Við erum með afhendingarplan út apríl. Það er mun meira magn en hefur komið það sem af er ári,“ segir Júlía Rós. „Þetta er töluverð aukning.“

Hún bendir á að inni í umræddri áætlun sé ekki bóluefni Janssen sem hefur fengið markaðsleyfi hér á landi. Það mun væntanlega bætast við í apríl. 

Til samanburðar hafa 52.604 skammtar af bóluefni verið gefnir hingað til, skv. tölum á Covid.is og eru einhverjir skammtar ekki komnir í dreifingu aukalega. Því má gera ráð fyrir því að skammtarnir sem koma til landsins frá miðjum marsmánuði og til loka aprílmánaðar verði mun fleiri en 50.000 talsins. Gefa þarf fólki tvo skammta af þeim bóluefnum sem eru þegar komin í umferð hérlendis, og eru inni í áætluninni.

Skv. upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu gera samningar Íslands og Moderna ráð fyrir því að 28.000 skammtar komi frá fyrirtækinu á öðrum ársfjórðungi, þ.e. frá apríl til júní, en staðfest afhendingaráætlun liggur ekki fyrir. Þá sagði Þórólfur Guðnason í samtali við mbl.is fyrir skömmu síðan að 34.000 skammtar kæmu frá Pfizer/BioNTech í aprílmánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert