Gjarnan er rangt fólk að meta hugmyndir

Þrátt fyrir að  allir vilji vel og mörg góð fyrirtæki í nýsköpun hafi fengið styrki til að framkvæma hugmyndir er ýmislegt sem betur mætti fara í stuðningi við nýsköpun. Þetta segir Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Avo, í samtali við Björt Ólafsdóttur í Dagmálum.

Avo hefur vakið mikla athygli að undanförnu og ekki að ósekju. Tekjur fyrirtækisins tífölduðust, þreföldun varð á starfsmannateymi þess og notkun núverandi viðskiptavina á hugbúnaði Avo jókst um ríflega 200% á síðasta ári. Fyrirtækið á rætur sínar í rússíbanareiðinni í kringum Quiz Up-spurningaleikinn á síðasta áratug og var stofnað af lykilstarfsfólki í hugbúnaðarteymi Plain Vanilla þegar ævintýrið í kringum leikinn var á enda.

Avo sem nú hefur starfsstöðvar víða um heim og þjónustar fyrirtæki á borð við bandaríska gítarframleiðandann Fender. Hins vegar fékk það enga opinbera styrki þegar stofnendurnir Stefanía og Sölvi Logason voru að ýta því úr vör. Stefanía segir fólk í þeirri stöðu þurfa að mæta hindrunum af ýmsu tagi og ein þeirra er að sannfæra fólk um ágæti hugmyndar sinnar.

Í myndskeiðinu er brot úr spjalli hennar við Björt þar sem Stefanía segir meðal annars að fólk með rangan bakgrunn sé fengið til að meta framúrstefnulegar hugmyndir á sviði sem er því framandi í íslenska sprotaumhverfinu.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins hér en einnig er hægt að kaupa vikupassa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert