Orri Páll tilnefndur til Blaðamannaverðlauna BÍ

Orri Páll Ormarsson, Morgunblaðinu, er tilnefndur fyrir viðtal ársins.
Orri Páll Ormarsson, Morgunblaðinu, er tilnefndur fyrir viðtal ársins. mbl.is/Jim Smart

Dómnefnd Blaðamannaverðlauna BÍ hefur nú tilkynnt tilnefningar til verðlaunanna, en þau eru veitt í fjórum flokkum.

Í flokknum viðtal ársins er Orri Páll Ormarsson blaðamaður tilnefndur fyrir viðtal við Ingva Hrafn Jónsson sem birtist í Morgunblaðinu hinn 12. júlí 2020. Þar ræðir Ingvi Hrafn um andlát bróður síns, Jóns Arnar Jónssonar, og þá ákvörðun hans að þiggja dánaraðstoð í Kanada.

Fyrir viðtal ársins eru einnig tilnefndar Erla Hlynsdóttir á DV og Hlédís Maren Guðmundsdóttir, Stundinni.

Fyrir umfjöllun ársins eru tilnefnd Birta Björnsdóttir og Guðmundur Björn Þorbjörnsson fyrir þættina Heimskviður á RÚV, Erla Björg Gunnarsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi fyrir umfjöllun Kompáss um dulinn vanda kvenna með þroskahömlun sem leiðst hafa út í vændi og blaðamenn Kjarnans fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg 1.

Í flokknum rannsóknarblaðamennska ársins eru tilnefnd Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan og Stefán Drengsson á RÚV, Freyr Rögnvaldsson og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Stundinni, og Nadine Guðrún Yaghi á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.

Þá eru tilnefndar til blaðamannaverðlauna ársins Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir á RÚV, Sunna Karen Sigurþórsdóttir á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar og Þórhildur Þorkelsdóttir, RÚV.

Verðlaunahafar verða tilkynntir eftir viku.

Tilnefningar til verðlaunanna má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert