Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að veita heimild fyrir því að leggja aparólu (zip-línu) frá Perlunni og niður í Öskjuhlíð. Áður hafði skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar lagst gegn því.
Eignarhaldsfélagið Perla Norðursins óskaði eftir samþykki borgarráðs heimild til að nýta 65m2 svæði í Öskjuhlíð undir neðri stöð fyrir zip-línur þannig að hægt verði að renna sér á línum um 200-250m leið í suðurátt frá Perlunni en endastöð verði á afnotasvæðinu. Um er að ræða tilraunaverkefni í eitt ár. Stefnt er að því að zip-línurnar verði tvær.
Í umsókninni segir: Um er að ræða tvær stálburðargrindur sem halda línunum. Efri burðargrindin verður tengd við Perluna til að tryggja að hann skríði ekki. Neðri burðargrindin sem verður á afnotasvæðinu verður byggð ofan á tvö gáma. Gámarnir og burðargrindin verða hífð á staðinn svo allt rask á staðnum verði í algjöru lágmarki. Framkvæmd öll skal miðast við að þegar gámarnir verða teknir í burtu verði umhverfisáhrif lítil sem engin. Grafa þarf 4 holur og koma fyrir steytum stöplum sem leigutaki skal fjarlægja við lok leigu. Allur frágangur og klæðning á gámun verði umhverfi til sóma.
Í frétt Morgunblaðsins fyrr í mánuðinum kom fram að skipulagsfulltrúinn segi að meginstefna í skipulagi Öskjuhlíðar sé að svæðið þjóni áfram hlutverki sínu sem einn helsti útivistarskógurinn innan þéttbýlissvæðis borgarinnar. Uppbygging innan og í jaðri svæðisins skuli vera í lágmarki.
„Lagt er því til að heimila ekki uppsetningu á zip-línu á borgarlandi með tilheyrandi gámastæði með vísan til þess að það samræmist ekki gildandi deiliskipulagi fyrir Öskjuhlíðina, né er það vilji borgarinnar að breyta skipulaginu til að koma slíkri starfsemi inn á skipulag.“
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, lagði fram bókun á fundinum í gær:
„Afnotasamningur um spildu fyrir aparólu í Öskjuhlíð hefur verið samþykkt í borgarráði. Skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar hefur samt hafnað umsókn Perlu norðursins, rekstrarfélags Perlunnar, um að setja upp svokallaða zip-line, nokkurs konar risaaparólu, sem átti að ná um 235 metra ofan af Perlunni og niður í Öskjuhlíð. Segir í umsögninni að deiliskipulag borgarinnar geri ekki ráð fyrir slíkri línu eða rólu. Þá sé það heldur ekki vilji borgarinnar að skipulagi verði breytt svo hægt sé að setja slíkt upp. Umsókn Perlu norðursins var því hafnað. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svona róla skemmtileg en þykir sérkennilegt að lesa umsögn skipulagsstjóra sem segir nei á sama tími og meirihlutinn í borgarráði segir síðan já við rólunni.“