Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur undirritað samevrópska ráðherrayfirlýsingu um mikilvægi öflugra gagnatenginga innan Evrópu og til annarra heimsálfa (e. The European Data Gateways Declaration) fyrir fjölbreytta stafræna þróun í Evrópu.
Yfirlýsingin var undirrituð í morgun á fundi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og EES-þjóðanna um stafræna þróun (e. Digital Day), að því er segir í tilkynningu.
Markmiðið með yfirlýsingunni er að setja fram þá framtíðarsýn að Evrópa verði leiðandi í gagnatengingum hvort tveggja innan álfunnar og til annarra heimsálfa sem uppfylli ströngustu kröfur um öryggi net- og upplýsingakerfa.
„Ísland er í röð fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum samkvæmt mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Við eigum góð fjarskiptanet og höfum sett skýran lagaramma um öryggi net- og upplýsingakerfa. Alþjóðlegt samstarf um að efla fjarskiptaþjónustu er nauðsynlegt og við viljum taka virkan þátt í að móta framtíðina í þessum efnum í Evrópu með samstarfsþjóðum okkar í EES-samstarfinu,“ segir Sigurður Ingi í tilkynningunni.
„Íslensk stjórnvöld hafa unnið markvisst að undirbúningi þriðja fjarskipta-sæstrengsins til Evrópu á undanförnum misserum, sem er í anda þessarar yfirlýsingar og stefnu fyrir alla Evrópu,“ bætir hann við.