Biðröð í þyrluflug yfir gossvæðið

Á þessu skjáskoti má sjá tvær þyrlur við eldstöðvarnar um …
Á þessu skjáskoti má sjá tvær þyrlur við eldstöðvarnar um klukkan 13 í dag. Skjáskot/Rúv

Fjöldi fólks bíður þess nú að komast í þyrluflug yfir gossvæðið í Geldingadal við Fagradalsfjall. Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, segir í samtali við mbl.is að klukkan tvö í dag muni fyrirtækið hefja flug með almenning sem hafi bókað sig í flug og reynt verði að halda því alla vega til klukkan fjögur í dag. Þá sé útlit fyrir verra veður og meiri úrkomu, en haldið verði áfram með flug á morgun.

Þrátt fyrir að loftsvæðið væri lokað við eldstöðina í nótt og í dag fengu Norðurflug og aðrir þyrlurekendur undanþágu til að fljúga með fréttafólk og erlenda fjölmiðla yfir eldstöðina í morgun. Birgir segir að hann fagni þeirri ákvörðun mjög og bendir á að einn aðilinn sem hafi verið í fluginu í morgun hafi verið á vegum Íslandsstofu. „Hann sendir þetta efni beint á alls konar miðla erlendis,“ segir Birgir og bætir við að þetta skipti ferðaþjónustuna gríðarlegu máli á þessum tímapunkti. „Það er stórkostlegt tækifæri til að komast úr þessu Covid.“

Fram til 14 í dag segir Birgir að fyrirtækið sé að fljúga með fréttafólk, en eftir það byrja flugferðir með almenning. „Það er reyndar ekkert frábært veður í dag eða á morgun,“ bætir hann við, en miðað við spána segir Birgir að gert sé ráð fyrir að flogið verði til klukkan fjögur í dag.

„Við byrjum svo aftur klukkan 11 á morgun,“ en flogið verður meðan veður og skyggni leyfir.

Hver ferð er um klukkustund og segir Birgir að þeim takist að stoppa í um 10 mínútur á svæðinu. Hins vegar hefur verið sett hámark á flugför innan svæðisins og er miðað við sex í einu. Gildir að fyrstur komi fyrstur fær og gæti þetta að sögn Birgis aðeins tafið ferðir. Norðurflug er með tvær þyrlur í notkun í þessu verkefni, önnur þeirra ber fimm farþega en hin sex. Segir Birgir að þegar séu tugir manns á biðlista hjá félaginu og hafi fjölgað nokkuð í dag. Spurður um verð fyrir flugfarið segir Birgir að það sé um 44 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert