Bitin í andlitið af Rottweiler-hundi

Röntgen bar á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis.
Röntgen bar á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis. mbl.is/Golli

Ung stúlka var flutt með sjúkrabíl á slysadeild í gærkvöldi eftir að hafa verið bitin af Rottweiler-hundi á skemmtistaðnum Röntgen í miðbæ Reykjavíkur. Ásgeir Guðmundsson, eigandi staðarins, staðfesti þetta við mbl.is.

Hundar hafa hingað til verið leyfðir inni á Röntgen, rétt eins og víða annars staðar, en Ásgeir segir að það verði endurskoðað eftir atburði gærkvöldsins.

Varðstjóri slökkviliðs staðfesti að sjúkrabíll hefði flutt einstakling á slysadeild af staðnum en gat ekkert sagt um líðan stúlkunnar.

Röntgen bar.
Röntgen bar. Ljósmynd/Owen Fiene

Gerðist rétt fyrir lokun

Ásgeir segist sjálfur ekki hafa verið á staðnum þegar atvikið átti sér stað og því geti hann illa lýst því sem gerðist. Hann segir að atvikið hafi komið upp korter fyrir ellefu, skömmu áður en staðnum var lokað, og því hafi skemmtanahald á staðnum ekki haldið áfram. 

„Það var ungur maður þarna með hund og það sem gerist er að hann ræðst þarna á stúlku og bítur hana í andlitið,“ segir Ásgeir. Að hans sögn var eigandi hundsins miður sín yfir atvikinu.

Hvers vegna gerðist þetta, kom til einhverra stimpinga sem hundurinn bregst svona við eða var þetta alveg fyrirvaralaust?

„Þetta gerðist bara upp úr þurru í rauninni.“

Ásgeir segist hafa rætt við föður stúlkunnar í kjölfar atviksins og segist halda að betur hafi farið en á horfðist í fyrstu.

„Það greip um sig ákveðið sjokk auðvitað. Ég settist niður með mínu starfsfólki eftir þetta og við ræddum þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka