Bjarminn frá eldunum í Geldingadal sést greinilega frá Grindavík þegar horft er í norðaustur frá bænum, þar sem hann lýsir upp skýin yfir Fagradalsfjalli.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur segir að nú sé verið að fækka á vaktinni í húsi björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
„Hér er allt að verða með kyrrum kjörum og það eru leiðbeiningar vísindamanna til okkar að frekari tíðinda sé ekki að vænta að sinni,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.
„Það verður þó áfram vakt hjá okkur.“
Spurður hvort hann telji bæjarbúa munu ná að festa svefn í nótt segist hann vel geta trúað því að það verði mörgum auðveldara núna en þegar skjálftavirknin náði sem mestum hæðum.
„Það hefur stundum verið erfitt að festa svefn vegna skjálftanna og vonandi léttir þetta gos á þeim.“
Hann segir það gott að gosið hafi komið upp á milli fjalla og handan Fagradalsfjalls, séð frá Grindavík.
„Ef gosið hefði komið upp í Nátthaga þá hefði hraunið hugsanlega getað náð að Suðurstrandarveginum,“ segir hann. „Eins og bent hefur verið á þá er þetta núna hálfgert baðkar þarna á milli fjallanna sem verið er að safnast í. Kemur í ljós hvort það fyllist.
Gott að vita að fólki sé ekki hætta búin. Gasið getur valdið óþægindum.“