Það er samdóma álit allra sérfræðinga að gosið í Geldingadal við Fagradalsfjall sé lítið. Krafturinn í hraunflæðinu er ekki mikill eins og er, en tvær hrauntungur renna úr sprungunni sem talin er vera allt að kílómetri að lengd, samkvæmt nýjasta mati. Sex gosstrókar standa í loft upp.
Erfitt er að segja til um hve lengi gosið mun vara. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld að gosinu gæti lokið í nótt eða eftir mánuð.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, hefur staðið vaktina í samhæfingarmiðstöð almannavarna í kvöld og í nótt. Hann segir að menn hafi reynt að rýna í reynsluna af Kröflueldum og gosinu í Fimmvörðuhálsi og allt eins sé búist við að gosið geti „mallað“ í nokkrar vikur.
Almannavarnir og Veðurstofan hafa boðað til blaðamannafundar klukkan 11 á laugardag.
Gosið ógnar ekki byggð og engin gasmengun hefur mælst í nærliggjandi bæjum. Lögreglumenn með handmæla hafa mælt loftgæði í Þorlákshöfn, Hveragerði, Ölfusi og Árborg.
Víðir beinir því þó til fólks að nálgast gasstöðvarnar ekki. Ýmiss konar gasmengun getur lagst í lægðir í námunda við eldsupptökin og safnast saman í því magni að lífshættulegt sé. Hann bendir enn fremur á að leiðin að gossvæðinu sé tyrfin og nokkuð löng. Fyrr í kvöld þurftu björgunarsveitir að aðstoða vanbúið fólk sem var á göngu á svæðinu til að freista þess að komast í námunda við gosið.
Vísindamenn verða við vinnu í Geldingadal í nótt og á morgun að taka sýni úr hrauninu, mæla rennsli þess, gastegundir og undirbúa frekari myndatöku. Því ættu nákvæmari líkön fyrir gasstreymið að fást á morgun.
Opið er fyrir umferð um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg. Þeirri fyrrnefndu var lokað tímabundið í kvöld eftir að fór að gjósa en hún var opnuð að nýju á tólfta tímanum.
Krýsuvíkurvegur er hins vegar lokaður og sama gildir um Suðurstrandarveg sem hefur raunar verið lokaður frá því á fimmtudag vegna sigs af völdum jarðhræringa. Því til viðbótar eru ýmsir slóðar á svæðinu lokaðir vegna drullu.
Tekið er að fækka í hópnum í samhæfingarmiðstöð almannavarna þegar blaðamaður nær tali af Víði. „Við erum að draga úr starfseminni fyrir nóttina. Við verðum aftur með vel mannað í birtingu en við reynum að hvíla fólk þangað til. Við erum undir það búin að þurfa að standa lengi í þessu og þá þurfum við að spara mannskapinn eins og hægt er,“ segir Víðir. Vitanlega verður þó staðin vakt í alla nótt.