Dreifðu rýmingarborðum í Vogum

Björgunarsveitir við störf nærri Keili fyrr í mánuðinum.
Björgunarsveitir við störf nærri Keili fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitin Skyggnir í Vogum naut aðstoðar bæjarbúa við að dreifa rýmingarborðum sem auðvelda eiga rýmingu bæjarins ef til hennar kemur. Hvert heimili fékk um lúguna tvo borða, einn rauðan og annan hvítan, sem það hengir á áberandi stað við heimili sitt ef þarf að rýma. 

„Þetta bara auðveldar alla rýmingu,“ segir varðstjóri Skyggnis við mbl.is og bætir við að aðeins sé um varúðarráðstöfun að ræða. Ef gasmengun verður mikil á svæðinu vegna gossins getur mögulega þurft að rýma bæinn, þó er það talið afar ólíklegt.

„Þá hengir fólk borðann á hurðina hjá sér eða á áberandi stað, rauðan ef búið er að rýma og hvítan ef hjálp vantar.“

Björgunarsveitin Skyggnir útbjó borðana í samvinnu við sveitarstjórn Voga. Skyggnir auglýsti svo eftir hjálpfúsum bæjarbúum á Facebook-síðu sinni, enda þurfti að dreifa borðum til um 1.300 íbúa á um 500 heimilum. Fólk var fljótt að taka við sér og tók enga stund að bera borðana út til allra í bænum, að sögn varðstjóra Skyggnis.

Kæru íbúar Voga við félagarnir í Skyggni erum búnir að standa í smá ströngu í nótt og morgun og vantar nokkra...

Posted by Björgunarsveitin Skyggnir on Laugardagur, 20. mars 2021
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert