Aðstæður á svæðinu í kringum eldhræringarnar í Geldingadal í Fagradalsfjalli eru alls ekki góðar, að sögn Freys Hákonsonar tökumanns, sem hefur verið á svæðinu í nótt.
„Svæðið er blautt og laust í sér og það er varhugavert yfirferðar fótgangandi og á bifreiðum, þannig að þetta er ekki svæði til að fara í skemmtigöngu á,“ sagði Freyr við K100 í morgun.
Hann taldi ekki ólíklegt að fólksbílum væri hætt við festast í tilraunum sínum til að ferðast um torfært svæðið.
Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi almannavarna leggur í samtali við mbl.is áherslu á að eldgosið sé í óbyggðum á Reykjanesi og að nýleg dæmi séu um að þar lendi í ógöngum jafnvel vanasta fólk. Ekki staður til að fara í labbitúr, segir Hjördís.
Þeir sem fara um svæðið eru fulltrúar almannavarna og vísindamenn, og blaðamenn í fylgd með þeim. Farið er á sérútbúnum bílum og með allan nauðsynlegan búnað og óviðkomandi aðgangur bannaður.
Freyr fór ásamt öðrum að gossvæðinu í gær og var, að hann telur, um kílómetra frá sprungunni, sem er það næsta sem menn hafa farið gosinu. Þar voru teknar fyrstu myndirnar í návígi af gosinu úr landi.
Eldgosið hófst klukkan 20.45 í gærkvöldi en þess varð fyrst vart rétt tæpri klukkustund fyrir. Hætta stafar af gasmengun af völdum gossins en ekki er talið að það ógni byggð.