Fylgjast vel með þegar áttin snýst um hádegi

Vísindafólk á vegum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar flugu yfir gosið í …
Vísindafólk á vegum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar flugu yfir gosið í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Það er gasstreymi úr gosinu en það rís ekki hátt. Gasmökkurinn er þó greinilegur og blá gufa er yfir gossvæðinu. Þetta segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Vísindafólk á vegum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar er nú að lenda eftir ferð yfir svæðið, en það skoðaði meðal annars útbreiðslu hrauns, stöðu gossins og gasmengun.

Stuttur stöðufundur verður hjá vísindafólki Veðurstofunnar og ríkislögreglustjóra núna rétt rúmlega níu og er líklegt að frekari upplýsingar komi í kjölfarið.

Eins og staðan er núna er vestlæg átt á Reykjanesskaganum og berst því gasmengun til austurs. Um og eftir hádegi er gert ráð fyrir að áttin snúist í suðlæga átt og þá gæti gas í einhverju magni farið yfir höfuðborgarsvæðið og Voga.

Hulda segir að þegar áttin snúist muni þau fylgjast með mælum í Hveragerði, en þar eru gasmælar staðsettir, og í ljósi þeirrar niðurstöðu verði hægt að meta hvort líklegt sé að eitthvert gas komi yfir höfuðborgarsvæðið og hver styrkur þess verði.

Gosið virðist í rénun og í fréttum K100 í morgun talaði Víðir Reynisson um „pínulítið gos“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert