„Bækur, garn og kaffi eru góð blanda. Hér í versluninnni, sem er við Hrannarstíginn miðsvæðis í bænum, ætlum við að skapa þægilegt andrúmsloft og veita fólki góða þjónustu,“ segir Signý Gunnarsdóttir sem ásamt Lilju Magnúsdóttur og Karitas Eiðsdóttur stendur að rekstri Græna kompanísins sem opnað verður formlega í Grundarfirði í dag.
Staðnum lýsir Signý sem blöndu af bókabúð og hannyrðaverslun sem að auki er kaffihús með léttum veitingum á góðu verði.
„Lilju langaði að opna bókabúð og Karitas, sem er mikið í handavinnunni, átti sér draum um verslun með vörum til slíks. Fékk garnlager úr verslun úti í Ólafsvík sem lagði upp laupana og auðvitað var mörgu öðru bætt við svo vöruúrvalið er fjölbreytt. Lilja er bókakona og í búðina núna eru komnar allar nýjustu bækurnar frá forlögum landsins,“ segir Signý í Morgunblaðinu í dag.
Samstarfskonurnar þrjár munu skipta með sér vöktum í búðinni. Munu meðal annars bjóða upp á kaffi, bakkelsi og fleira gott.