Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir að gasmengun frá eldgosinu í Geldingadal í Fagradalsfjalli fari að berast í átt að höfuðborgarsvæðinu með deginum.
Í grófum dráttum liggur fyrir hvernig gasið mun dreifast um byggðir en ómögulegt er að segja til um hve mikið það verður.
„Við vitum hvernig það mun dreifast en það er aðallega styrkleikinn sem enn er óljós. En miðað við að þetta er lítið gos er langlíklegast að þetta sé ekki neitt sem við þurfum að hafa áhyggjur af,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.
Verið er að koma fyrir mælum svo að gasmagnið liggi fyrir sem fyrst.
Þegar áhyggjum af gasmengun sleppir beinast sjónir almannavarna og sérfræðinga að mannaferðum á svæðinu.
„Ég held að helsta áhyggjuefnið sé bara illa búið fólk á þessu svæði. Það er gasmengun og hún getur safnast fyrir í lægðum og gasið getur rutt súrefninu í burtu. Það geta myndast staðir þar sem er ekkert súrefni, sem er bara mjög lúmskt. Illa búið fólk í lélegu sambandi í óbyggðum. Að fólk lendi í vandræðum á svæðinu, það held ég að sé helsta áhyggjuefnið.“
Upplýsingafundur almannavarna er á dagskrá kl. 14, þar sem Kristín tekur til máls ásamt öðrum vísindamönnum.