Engar vísbendingar eru á þessari stundu um að ráðast þurfi í rýmingar eða aðrar slíkar ráðstafanir vegna eldvirkni í Geldingadölum í Fagradalsfjalli, að sögn Fannars Jónassonar bæjarstjóra í Grindavík.
Krýsuvíkurskóli var þó rýmdur í gær vegna hættu á gasmengun. Áttin er vestlæg þannig að hún ferðast austur með landi í dag.
Að sögn Fannars hefur ekki orðið breyting á mati vísindamanna á gosinu. Það er staðbundið við Geldingadal í Fagradalsfjalli, þar sem enn er hraunrennsli.
Ekki sjást eldstrókar á svæðinu og engin merki eru um að gosið sé að vaxa. Skjálftar hafa að sögn bæjarstjórans ekki fundist í nótt.
Fannar segir að íbúar hafi haft varann á sér í nótt og sumir verið órólegir. Hann lýsir mannlífi í bænum þó með svipuðum hætti og vænta megi á venjulegum laugardagsmorgni, lítil umferð og rólegt um að litast. „Ég veit ekki annað en að fólk hafi borið þetta sæmilega,“ sagði hann í viðtali við K100 í morgun.
Jarðskjálftahrina hefur staðið yfir frá 24. febrúar og hafa raunar margir óskað sér að eldgos hefjist, sem gæti bundið enda á hrinuna. „Kannski verður þetta til þess að við losnum við þessa þrálátu skjálfta sem hafa verið að hrekkja okkur í mánuð,“ segir Fannar.
Eins og er lýst hér í grein Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á Vísindavefnum, er hættan á heilsufarslegum skaða vegna kolefnistvíildis sem kemur úr eldgosum tvískipt. Annars vegar eru það skammtímaáhrif, möguleg erting í augum, lungum og koki og jafnvel hósti, og hins vegar eru það langtímaáhrif, sem ekki er nægilega mikið vitað um. Þar er þó talin hætta á þrálátum öndunarfæraeinkennum.