„Í skýjunum“ með sigur eftir 17 ára bið

Sigurbjörg, Eiríkur og Gabríel eftir sigurinn í gær.
Sigurbjörg, Eiríkur og Gabríel eftir sigurinn í gær. Ljósmynd/Aðsend

Verzlunarskóli Íslands sigraði á föstudagskvöld í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur í annað sinn í sögu keppninnar, en skólinn vann síðast í keppninni fyrir heilum 17 árum.

Eiríkur Kúld Viktorsson var í liði Verzlunarskólans ásamt Gabrí­el Mána Ómars­syni og Sig­ur­björgu Guðmunds­dótt­ur. 

Sig­ur­inn var ör­ugg­ur en Verzló fékk 31 stigi á móti 17 stig­um Kvenna­skól­ans.

„Þetta var mjög góð leið til þess að enda þetta hjá okkur. Þetta er síðasta keppnisárið okkar allra þannig að við erum bara í skýjunum,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is, en hann keppti einnig fyrir hönd Verzlunarskólans á síðasta ári. 

Eiríkur, sem jafnframt er forseti nemendafélags skólans, segir að gríðarleg vinna hafi farið í undirbúning fyrir úrslitaviðureignina. 

„Við vissum að við værum að mæta sterku liði og æfðum okkur vel. Við höfum verið að æfa minnst tíu eða tólf tíma á dag. Við höfum ekki mikið lært eða mætt í tíma yfirhöfuð. Núna þurfum við að detta aftur í alvöruna,“ segir Eiríkur. 

Sigur í skugga eldgoss

Skömmu eftir að keppninni lauk í gær tók að gjósa í Geldingadal austur af Fagradalsfjalli. Eldgos kom þó ekki í veg fyrir að sigrinum væri fagnað af liðinu.

„Við fréttum mörg ekkert af þessu fyrr en við vorum bara komin í fögnuðinn eftir á,“ segir Eiríkur. „Þetta var alvörutilefni og við fögnuðum á pari við það.“

Lið Verzlunarskólans hefur einnig notið velgengni í ræðukeppni framhaldsskólanna, Morfís, og komst skólinn nýverið í átta liða úrslit keppninnar. Eiríkur segir þetta því kjörið tækifæri fyrir skólann til að sigra í báðum keppnunum.

„Við erum alveg í dauðafæri á að sækja báða bikarana heim,“ segir Eiríkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert