Sveinn Sigmarsson tuskusali í Saumu í Hátúni hefur lifað litríku lífi. Í eitt skipti var hann hætt kominn. Hann var þá að vinna niðri í lest á togara þegar kassastæða sem verið var að hífa upp á dekk rakst utan í lúguna með þeim afleiðingum að kassarnir tvístruðust í allar áttir.
„Þegar ég horfði á þetta gerast og allt dótið koma yfir mig var ég ekki í nokkrum vafa: Jæja, núna er ég dauður! Sama héldu aðrir sem urðu vitni að þessu. Nema hvað? Ég var sprelllifandi og hvorki skráma né mar á mér. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum höfðu kassarnir raðast allt í kringum mig. Menn áttu ekki orð.“
Sveinn var einnig til sjós í tvö sumur, á Stapafellinu, og varð svo frægur að vera tekinn fyrir smygl í fyrsta túr.
– Hverju varstu að smygla?
„Fjórtán vodkaflöskum og einum plötuspilara. Ég slapp með sekt og fékk að halda plötuspilaranum eftir að hafa greitt toll.“
Undir stjórn Þræla-Jóns
– Átti sjómannslífið við þig?
„Já, það átti ágætlega við mig. Að vísu spúði ég eins og múkki í fyrstu ferðinni. Það kætti yfirmann minn, sem gekk undir því geðþekka nafni Þræla-Jón, óskaplega og hann lét mig losa skítastíflu meðan ég var hvað slappastur. Síðar gekk Þræla-Jón fram af mér og ég ætlaði að berja hann. Þá sagði hann: „Jæja, Svenni minn. Núna erum við góðir.“ Og hann bað aftur um mig sumarið á eftir.“
Sveinn var við nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti á veturna og eftir skólaball fór hann heim með stelpu. Þurfti svo að skreppa á klósettið um nóttina og hverjum haldið þið að hann hafi þá mætt? Jú, laukrétt, téðum Þræla-Jóni. „Mér krossbrá auðvitað en það hvorki datt né draup af Jóni sem bauð mér bara vinsamlega góða nótt. Enda kom á daginn að þetta var alls ekki Þræla-Jón, heldur tvíburabróðir hans, sem kannaðist auðvitað ekkert við mig.“
Hann skellihlær.
Sveinn var mikill hrakfallabálkur á sínum yngri árum; mölbraut til dæmis á sér höndina í svifdrekaflugi. „Ég var níu mánuði í gifsi eftir það slys. Ekki nóg með það; mér tókst á einhvern ótrúlegan hátt að brjóta á mér hina höndina líka. Var sumsé um tíma í gifsi á báðum.“
Mesta áfallið var þó þegar hann keyrði spíttbát óvart upp á land þegar hann var sextán ára. Sveinn var þá að draga mann á sjóskíðum á Þingvallavatni og með þrjá unga pilta með sér í bátnum. Honum hlekktist á með þeim afleiðingum að báturinn keyrði upp í harðaland.
Sjóskíðamaðurinn og tveir piltanna slösuðust lítið sem ekkert en þriðji pilturinn festist undir bátnum mikið slasaður. „Það var skelfileg aðkoma. Höfuðleðrið var að hluta farið af svo skein í kúpuna sem hafði brotnað. Hann sat fastur undir bátnum og ég fylltist einhverjum fítonskrafti og tókst að lyfta bátnum upp þannig að hægt var að ná drengnum undan. Fólk dreif að úr nærliggjandi bústöðum og honum var komið til þess að gera hratt undir læknishendur. Ég var í algjöru sjokki og áttaði mig ekki strax á því að ég var mikið slasaður sjálfur; miltað hafði til að mynda sprungið.“
Sveinn og pilturinn voru báðir fluttir á gjörgæslu þar sem þeir lágu næstu dagana. Fjölskylda Sveins var úti á landi og komst því ekki strax að sjúkrabeðinum. „Við lágum hlið við hlið og aumingja drengurinn grét látlaust í tvo sólarhringa. Það var gríðarlega erfitt. Það sem kom mér í gegnum þetta var afstaða móður hans sem sat hjá okkur. Hún sagði öllu máli skipta að við jöfnuðum okkur, síðar mætti fara yfir hvað fór úrskeiðis. Sem betur fer greri drengurinn sára sinna og náði fullri heilsu á ný. Þetta slys kemur oft upp í hugann enda mín mesta eftirsjá í lífinu. Þetta hafði djúpstæð áhrif á mig.“
Nánar er rætt við Svein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, meðal annars um rætur hans í vefnaðarvörubransanum, um nýfermdu dótturina sem hann eignaðist og um hálfbróður hans, Jón Pál Sigmarsson heitinn.