Magnað að fylgjast með mættinum í jörðinni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræðir við liðsmenn Gæslunnar fyrr í …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræðir við liðsmenn Gæslunnar fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrstu klukkutímar eldgossins í Geldingadal hafa sýnt hversu vel almannavarnakerfi landsins er í stakk búið til að takast á við fjölbreyttar áskoranir. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

„Almannavarnir hafa brugðist mjög vel við og hratt, bæði okkar vísindamenn en líka björgunarsveitir og aðrir sem koma að þessu, þar með talið fjölmiðlar sem greina frá þessu,“ segir Áslaug.

Hún var um borð í vél Landhelgisgæslunnar sem flaug yfir gossvæðið skömmu eftir að eldgos hófst. Áslaug segir magnað að sjá eldsumbrotin úr þessari hæð og verða vitni að þeim mikla mætti sem er í jörðinni. „Þetta er ótrúlegt sjónarspil.“

Áslaug deildi heillöngu myndbandi úr þyrlufluginu á Instagram-síðu sinni.

Ríkisstjórnin upplýst í fyrramálið

Ráðherrar viðeigandi málaflokka munu funda með viðbragðsaðilum í samhæfingarmiðstöð almannavarna klukkan 10 í fyrramálið, á laugardagsmorgun. Auk dómsmálaráðherra munu forsætisráðherra, umhverfisráðherra, samgönguráðherra og fjármálaráðherra sitja fundinn. Að sögn Áslaugar munu ráðherrar þá fá upplýsingar um stöðu mála og hvort þörf sé á að ríkisstjórnin bregðist við með einhverjum hætti til að auðvelda viðbragðsaðilum störf. 

Kristín Jónsdóttir, doktor í jarðeðlisfræði hjá Veðurstofunni, og Áslaug Arna …
Kristín Jónsdóttir, doktor í jarðeðlisfræði hjá Veðurstofunni, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í flugskýli Landhelgisgæslunnar fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nógu stórbrotið er útsýnið af jörðu niðri.
Nógu stórbrotið er útsýnið af jörðu niðri. Ljósmynd/Gílsli Már Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert