„Viðamikil endurskipulagning á rekstri kirkjunnar er ein helsta skýring þessarar niðurstöðu ársreikningsins. Sala eigna sem voru of hátt bókfærðar myndar sölutap sem einnig er meginástæða stöðunnar,“ segir í fréttatilkynningu sem þjóðkirkjan sendi frá sér vegna ársuppgjörs 2020. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær var halli á rekstri kirkjunnar upp á 654 milljónir 2020.
„Niðurstaða ársreikningsins helgast fyrst og fremst af einskiptis fjárhagsaðgerðum í efnahagsreikningi eða um helmingur hallans,“ segir í tilkynningunni. Helmingur hallans er 327 milljónir. Í ársreikningi þjóðkirkjunnar – Biskupsstofu 2020 kemur fram að tap af sölu eigna hafi numið tæplega 207,5 milljónum króna. Pétur G. Markan, samskiptastjóri þjóðkirkjunnar, sagði að salan á Laugavegi 31, þar sem Biskupsstofa var til húsa, vegi þarna langþyngst.
„Kaupandinn óskaði eftir trúnaði um söluverðið og því get ég ekki upplýst um það. Húsið var metið hærra í okkar bókum en það seldist fyrir auk þess sem komið var að gríðarlega miklu viðhaldi og það var tekið með í reikninginn þegar salan fór fram,“ sagði Pétur. Hann sagði að þjóðkirkjan hafi selt ýmsar fleiri eignir í fyrra, gömul prestsetur og fleira.
En þarf að endurmeta verðmæti fleiri fasteigna þjóðkirkjunnar?
„Fjárhagsleg endurskipulagning heldur áfram á þessu ári. Slíkt endurmat verður væntanlega hluti af því ferli. Við gerum ráð fyrir að rekstur þjóðkirkjunnar verði kominn í jafnvægi árið 2023,“ sagði Pétur.