Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri gerir ráð fyrir að viðbragð almannavarna geti róast á næstu dögum. Viðbúnaðarstig almannavarna hefur verið fært niður í hættustig úr neyðarstigi. „Það virðist ekki vera nein hætta á ferðum,“ segir Sigríður.
„Í öllum almannavörnum er ákveðinn toppur í upphafi á meðan verið er að ná utan um allt verkefnið og svo róast það niður,“ segir Sigríður Björk í samtali við mbl.is.
Spurð hvort eftirlitið róist á næstu dögum með eldhræringunum í Geldingadal, segir Sigríður: „Við stefnum alla vega á að senda Víði í frí klukkan hálfþrjú í dag,“ segir Sigríður og það er auðvitað allt sem segja þarf.
Ríkislögreglustjóri kveðst ekki hafa áhyggjur af framvindunni en segir að ef hún hefði áhyggjur væri það af mannaferðum á svæðinu.
„Það geta verið pollar með mengun og það getur verið hættulegt að fara of nálægt gosinu. Við þurfum að tryggja að fólk sé vel búið, með gott símasamband og fari ekki of nærri á þessari stundu,“ segir Sigríður.