Stressandi til að byrja með

Flogið yfir gosið fyrr í kvöld.
Flogið yfir gosið fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er auðvitað alltaf stress í gangi til að byrja með þegar allt fer af stað og það þarf að kalla út mannskap og virkja allt sem þarf að virkja,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.

Hann er einn af mörgum sérfræðingum sem standa vaktina í húsakynnum Veðurstofu Íslands núna og sinna fjölbreyttum verkefnum. Þá eru sérfræðingar á vegum Veðurstofunnar einnig á vettvangi, m.a. til að mæla magn mögulegrar gasmengunar.

Mæla mögulega gasmengun

„Við erum ennþá með fólk sem er að mæla gas nálægt upptökunum og eigum eftir að fá niðurstöður frá þeim. Flugvélar með vísindamönnum eru ennþá á sveimi yfir svæðinu og verða þarna í einhvern tíma til að fá betra yfirlit yfir hvað er að gerast, hvernig og hversu stórt þetta er.“

Bjarki Kaldalóns Friis, jarðfræðingur á Veðurstofunni.
Bjarki Kaldalóns Friis, jarðfræðingur á Veðurstofunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Skyggnið yfir gossvæðinu er þó ekki gott en skýjahæð er 300 til 600 metrar. Veðurspáin fyrir sólarhringinn sem er nýhafinn er heldur ekki góð.

„Spáin fyrir morgundaginn er ekki rosalega góð en það er auðvitað úrkoma í spánni sem er gott upp á gasmengunina að gera, ef það er mengun. Vestanáttin heldur áfram í nótt og hún fer yfir í sunnanátt á morgun,“ segir Bjarki.

Erfitt að spá um hraunflæðið

Hann segir erfitt að segja til um hvernig hraunflæðið þróast, hvort það mesta sé yfirstaðið eða hvort það eigi eftir að aukast. Vísindamenn séu enn að vinna úr þeim gögnum sem eru aðgengileg núna.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands hefur sent frá sér líkan sem sýnir líklegustu rennslisleiðir hrauns, en það verður endurskoðað eftir því sem frekari upplýsingar berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert