Álfarnir skoruðu mig á hólm!

Jón Bjarki Magnússon kvikmyndagerðarmaður.
Jón Bjarki Magnússon kvikmyndagerðarmaður. Arnþór Birkisson

„Ég var farinn að óttast að ég hefði snert einhvern álagablett og reitt álfana til reiði,“ segir Jón Bjarki Magnússon kvikmyndagerðarmaður sposkur á svip, en ár er liðið frá því hann lauk við fyrstu heimildarmynd sína í fullri lengd, Hálfur Álfur. Væntingar stóðu til að sýna hana á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Vínarborg og á Skjaldborgarhátíðinni síðasta vor en báðum hátíðum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Skjaldborgarhátíðin fór loksins fram í september og þar vann myndin til dómnefndarverðlaunanna.

Í framhaldinu átti Hálfur Álfur að fara í almennar sýningar í Bíói Paradís – en hvað gerðist þá? Þriðja bylgja faraldursins skall á eins og flóðbylgja hérlendis. Ekki var um annað að ræða en að bíða fram á vorið og í vikunni verður loksins hægt að frumsýna myndina í Reykjavík og hefja almennar sýningar í Bíói Paradís. Jón Bjarki viðurkennir þó að hann hafi fengið í magann þegar ný smit utan sóttkvíar komu fram í byrjun mánaðarins og ekki var hægt að útiloka að fjórða bylgja faraldursins væri að hefjast. Það virðist hins vegar hafa sloppið til, eins og við þekkjum.

Jón Bjarki ásamt unnustu sinni, Hlín Ólafsdóttur, sem framleiðir myndina …
Jón Bjarki ásamt unnustu sinni, Hlín Ólafsdóttur, sem framleiðir myndina með honum og semur tónlistina.


Verð ævinlega þakklátur

Myndin er um ömmu Jóns Bjarka og afa, Huldu Jónsdóttur og Trausta Breiðfjörð Magnússon. Trausti var fæddur 1918 og Hulda 1921, þannig að Jóni Bjarka var ljóst að stykki hann ekki á verkefnið strax yrði það mögulega of seint. Enda fór það svo að hjónin létust bæði áður en myndin var frumsýnd, Trausti nýorðinn 100 ára 2019 og Hulda 99 ára fyrir tæpu ári.

„Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa náð að gera þetta með þeim og ljúka við myndina,“ segir hann. „Þetta verkefni snýst samt ekki bara um ömmu og afa, þótt þau séu miðlæg í myndinni. Þetta er miklu stærri saga um þessa heillandi kynslóð sem þau tilheyrðu. Kynslóðina sem upplifði ótrúlegar breytingar á lífsháttum og tækifærum og er óðum að hverfa. Tengslin eru ekki falin, en þetta er samt alls ekki ég „elska ykkur, amma og afi-mynd“. Hefði ég bara verið að gera þetta fyrir mína nánustu þá hefði ég gert allt öðruvísi mynd.“ 

Heiti myndarinnar, Hálfur Álfur, vekur forvitni og Jón Bjarki upplýsir að afi hans hafi tengst sínum innri álfi undir það síðasta. „Hann var alinn upp á Ströndum innan um álfa og nálgast maður ekki alltaf kjarnann þegar ferðalok eru í augsýn? Amma hafði á hinn bóginn engan húmor fyrir þessu „álfarausi“ í honum og ég þorði á stundum ekki annað en að slökkva á myndavélinni þegar þau byrjuðu að karpa um það. Þarna birtust mjög skrautlegar samræður, svo ekki sé meira sagt, sem snerust meðal annars um gildi bóka og steina. Sjálfur viðurkenni ég að ég var með fordóma fyrir álfaklisjunni. Ég meina, maður er spurður að því í Berlín hvort við Íslendingar séum ekki með álfamálaráðuneyti.“ Hann hlær.

Hulda Jónsdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon á aldarafmæli hans 2018.
Hulda Jónsdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon á aldarafmæli hans 2018.


Álfarnir stukku um borð

„En álfaþemað kom upp og varð myndlíking fyrir þetta ferðalag. Álfarnir stukku um borð á miðri leið og skoruðu mig á hólm! Þegar frá leið fannst mér það líka mjög viðeigandi. Álfar eru um margt holdgervingar gamla Íslands. Þeir eru enn þjóðlega klæddir og að róa til fiskjar og harðneita að fylgja okkur inn á 20. öldina, hvað þá 21. öldina. Sem barn var afi í hliðstæðu landi og átti fyrir vikið auðvelt með að tengja við álfana enda þótt amma kallaði þetta þjóðsögur og húmbúkk. Þegar upp er staðið er ég mjög glaður að álfarnir skuli hafa slegist í för með okkur. Þeir eru hluti af okkar menningu.“

Aðaltökur fóru fram vorið 2018 en um sumarið veiktist Trausti illa og var lagður inn á spítala. Náði sér í raun aldrei almennilega eftir það og lést í mars 2019, 100 og hálfs árs að aldri. Lokatökur fóru fram sumarið 2019, skömmu eftir að Trausti lést. Hulda náði að fylgja ferlinu lengur og var orðin spennt fyrir Skjaldborgarhátíðinni síðasta sumar. Því miður entist henni ekki aldur til að sjá myndina sýnda þar og hljóta verðlaun.

„Ömmu og afa var sárt saknað en það var yndislegt að ná að sýna myndina í bíósal fullum af fólki sem virtist vera að tengja við efnið. Myndin hefur líka verið sýnd á hátíðum hér og þar erlendis og viðbrögð hafa verið mjög ánægjuleg, en auðvitað finnst mér leiðinlegt að hafa ekki komist á þær hátíðir, út af ástandinu í heiminum,“ segir Jón Bjarki.

Nánar er rætt við Jón Bjarka í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert