Berst hratt í norðaustur en dreifist mikið

Ekki er gert ráð fyrir að gasið verði í svo …
Ekki er gert ráð fyrir að gasið verði í svo miklu magni að hættulegt sé á höfuðborgarsvæðinu.

Spáð er sunnan- og suðvestanhvassviðri í dag en hægari vindi austanlands. Gas frá gosinu í Geldingadal berst hratt til norðausturs í þessum vindi en dreifist sömuleiðis mikið. Ekki er gert ráð fyrir að gasið verði í svo miklu magni að hættulegt sé á höfuðborgarsvæðinu. Þó ber að varast styrk gass nærri eldstöðinni. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að úrkoma á vestanverðu landinu dragi einnig úr áhrifum af gasinu, en talsverð rigning eða súld er á vestanverðu landinu og dálítil væta sunnanlands. 

Á morgun má búast við suðvestanhvassviðri eða -stormi með éljagangi, hvassast þá við vesturströndina. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Suðvestan 13-20 m/s og éljagangur, hvassast við V-ströndina en léttir til á N- og A-landi. Hiti 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt, 8-15 m/s, og él, hvassast á annesjum, en léttskýjað NA-til. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:
Ákveðin suðvestlæg átt með slyddu eða snjókomu í fyrstu, en síðan éljum, en úrkomulítið NA-lands. Kólnandi veður.

Á fimmtudag:
Austlæg eða suðaustlæg átt með slyddu eða rigningu, en snjókomu á N-landi. Hiti nærri frostmarki.

Á föstudag:
Austlægar eða breytilegar áttir með éljum á S-og A-verðu landinu, en annars úrkomulítið. Svalt í veðri.

Á laugardag:
Útlit fyrir suðvestlæga átt og dálítil él á víð og dreif en þurrt og bjart veður austan til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert