Miðað við hraunrennslið í Geldingadal eins og það er núna tæki það 10-20 daga að fylla dalinn af hrauni. Í kjölfarið rynni hraunið væntanlega undan hallanum, að líkindum suður fjallið í átt að Nátthaga og svo Ísólfsskála.
Þetta er mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, á grundvelli útreikninga sem Jóhann Helgason hefur birt á samfélagsmiðlum.
„Ef gosið heldur áfram svona mjög lengi, þá kemur að lokum upp mjög mikið hraun. Það er lítið rennsli en það á eftir að koma í ljós hve lengi þetta stendur,“ segir Magnús Tumi í samtali við mbl.is.
Reiknað er með að hraunrennslið sé upp á 5-10 rúmmetra á sekúndu. Að mati Jóhanns er rúmmál dalsins um 6,8 milljónir rúmmetra. Ef fram heldur sem horfir fyllist dalurinn því á 10-20 dögum.
Eins og fram kemur í færslu Jóhanns leitar rennslið líklega til suðsuðvesturs í Nátthaga ef dalurinn fyllist. Þá á það eftir að fylla þá lægð áður en það getur haldið áfram í átt að Ísólfsskála, sem er fyrsta mannvirki sem getur orðið á vegi þess.
Miðað við núverandi gang ættu því að vera þó nokkrar vikur þar til hafa þarf raunverulegar áhyggjur af skemmdum á mannvirkjum.
Magnús Tumi segir að ferlið sé frekar hægt og rólegt. Það sé óljóst hvort gosflæðið muni aukast eða hvort dragi úr því, en algengara er að það dragi úr því með tímanum, enda í rauninni verið að tappa af tanki, ef svo má segja.
„Við vitum ekki hvort það er aðstreymi enn þá að neðan, þannig að það er óljóst hve hratt þetta getur gengið. Órói hefur að einhverju leyti verið að minnka, þannig að það gæti verið að það sé að draga úr þessu.
Þetta er býsna óljóst. Þetta gæti fjarað út á næstu dögum eða staðið í vikur,“ segir Magnús.
Magnús segir að öll atburðarásin á Reykjanesskaganum undanfarið hafi verið ákaflega forvitnileg og fróðleg, enda sé svæðið sérstakt í þessu tilliti.
„Það er mikið hægt að læra af þessu. Við erum að sjá eldgos við þessar aðstæður í fyrsta skipti og það er mikill lærdómur sem verður hægt að draga af þessum hreyfingum öllum.
Eldgosið er ekki endilega aðalatriðið í þeirri atburðarás allri en er afleiðing af henni náttúrlega. Þó að þetta sé lítið verður að telja, að þegar við skoðum allar aðstæður, umhverfi og staðsetningu, er þetta með merkilegustu gosum sem hafa orðið í mjög langan tíma,“ segir Magnús.