Elta gasmökkinn uppi

Melissa Anne Pfeffer við mælingar með MultiGAS-grímu.
Melissa Anne Pfeffer við mælingar með MultiGAS-grímu. Ljósmynd/Elísabet Pálmadóttir

Síðan eldgosið í Geldingadal hófst og reyndar einnig vikurnar þar á undan, hefur vísindakonan Melissa Anne Pfeffer verið á ferð í kringum gossvæðið ásamt gasmælingateymi sínu hjá Veðurstofu Íslands. Þá var hún í þeim hópi vísindamanna og björgunarsveitafólks sem kom fyrst að gosstöðinni á jörðu niðri aðfaranótt laugardags til að sinna mælingum.

Keyra um með mæla á þakinu og mæla mengun

Þegar mbl.is náði tali af Melissu fyrr í dag var hún ásamt samstarfsfélaga sínum á ferð á Reykjanesbraut við mælingar. Keyra þau um á jeppa sem er með sérhannaðan mæli á toppi bílsins sem notast við litrófsgreini, sem beint er upp í loft, til að sjá magn brennisteinsdíoxíðs (SO2) í andrúmsloftinu. Er þetta svokallaður fjarkönnunarbúnaður, öðru nafni DOAS (Differential Optical Absorption Spectroscopy). Gengur verkefnið þannig út á að vera á þeim stað þar sem gasmengunin á að vera hvað mest.

Melissa segir að aksturinn núna sé nokkuð þægilegri en hafi verið undanfarið, en eftir að vindurinn snerist í suðlæga er verið að fylgjast með gasmengun á Reykjanesbraut og samsíða vegum. Áður höfðu þau hins vegar verið á ferð fyrir austan gosstöðina, á ýmsum torfærum slóðum, til að vera á sem bestum stað til mælinga.

Þegar blaðamaður spyr Melissu hvort það megi ekki líkja þessum rannsóknum teymisins og eltingarleik við gasmökkinn við söguþráð myndarinnar Twister, ef hvirfilbylum er skipt út fyrir gasmökk, skellir Melissa upp úr en tekur svo undir og segir að hlutverkin séu í grunninn líklega ekki svo frábrugðin.

Baldur Bergsson við mælingar með Melissu, en Baldur er hér …
Baldur Bergsson við mælingar með Melissu, en Baldur er hér með DOAS-mælibúnaðinn á hjálmi sínum til ná gasmælingum næst gosinu. Ljósmynd/Elísabet Pálmadóttir

Mengunin pínulítil miðað við Holuhraun

Fyrr í dag notaði Melissa og teymi hennar sömu tækni til að skoða gasmengun alveg við gosstaðinn, en magn SO2 reyndist vera í samræmi við núverandi gildi sem notuð eru í líkanareikning og er magn SO2 sem kemur úr gosinu metið vera á bilinu 15-55 kg/s. Til samanburðar var slíkt magn um hundraðfalt meira í Holuhraunsgosinu.

Til þess að reikna spálíkön fyrir gasdreifingu þarf einnig að vita hæð gosmakkarins, staðsetningu gossprungunnar og veðurskilyrði á svæðinu. Hæð gosmakkarins er mæld með kvaðraðri vefmyndavél, en þetta er aðferð sem er þróuð af Talfan Barnie á Veðurstofunni.

Kolefnisríkara gas en í Holuhrauni

Strax þegar ljóst var að gos væri hafið fór Melissa ásamt samstarfskonu og þremur björgunarsveitarmönnum að gossvæðinu. Verkefnið þá var að fara beint þar sem gasmengunin var hvað mest og nota staðkönnunarbúnað (e. direct instrument) til að sjá hlutfall SO2, koldíoxíðs (CO2), brennisteinsvetnis (H2S) og tvívetni (H2). „Við vildum sjá hlutföllin í gasinu því það segir okkur ýmislegt um kvikuna,“ segir Melissa. Þá segir hún þetta einnig geta veitt upplýsingar um hvort búast megi við að breytingar séu að verða á gosinu eða því jafnvel að ljúka.

Sambærileg mæling var gerð í gær og í dag og var niðurstaðan í gær að samsetningin væri svipuð og strax í upphafi goss. Enn á eftir að vinna úr mælingunni í dag. Hins vegar segir Melissa að niðurstöðurnar í gær hafi sýnt fram á að gasið núna sé mun kolefnisríkara en gasið í Holuhrauni. Spurð hvaða þýðingu það hafi segir Melissa að þau séu enn að reyna að átta sig á því.

Melissa A. Pfeffen og samstarfskona hennar Sara Barsotti við mælingar …
Melissa A. Pfeffen og samstarfskona hennar Sara Barsotti við mælingar við Seltún áður en gosið hófst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Melissa flutti hingað til lands fyrir átta árum, en þá hafði hún stundað sambærileg vísindastörf í Alaska og rannsakað gas frá eldgosum þar. Hún segir muninn talsverðan samanborið við rannsóknirnar núna, en í Alaska voru tíð gos, en jafnan mjög fjarri mannabyggðum. Segir hún að þá hafi hún oft þurft að fljúga í nokkrum þyrluferðum áður en hún komst að eldgosi til mælinga.

Gosið núna er hennar annað gos síðan hún kom til Íslands, en áður hafði hún unnið við rannsóknir í kringum gosið við Holuhraun. Hún segir muninn á þessum tveimur gosum gríðarlegan. „Holuhraun var miklu miklu stærra,“ segir hún og bætir við að flæði SO2 úr Holuhraunsgosinu hafi verið hundraðfalt á við núverandi gos. „Í Holuhraunsgosinu var magn SO2 það mesta í nútímalegu gosi, þetta er miklu miklu minna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert