Erfiðasta fjallganga ævinnar borgaði sig

Pólverjar sem Engill vingaðist við á leiðinni upp tóku mynd …
Pólverjar sem Engill vingaðist við á leiðinni upp tóku mynd af honum þar sem hann stóð ískyggilega nálægt hrauninu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var án nokkurs vafa erfiðasta fjallganga sem ég hef farið í á ævi minni. Ég vanmat þetta alveg, þó að ég sé í formi,“ segir Engill Bjartur Einisson skáld um vorjafndægragöngu sína upp á Fagradalsfjall í nótt. Aðstæðurnar eru þó í raun ekki hættulegar, segir Engill.

Hann lagði af stað í göngu frá vegkantinum við Bláa lónið um sjöleytið í gærkvöldi og var að sögn tæpa fjóra tíma á leiðinni upp að eldgosinu sjálfu. Leiðin niður var öllu lengri, enda komin mikil þreyta í lappirnar á þeim tímapunkti.

„Brattinn var á stundum alveg ótrúlega mikill og á tíma var ég að klífa 45° bratt fjall. Þar að auki var torfært frá upphafi til enda og mikið af gjótum. Síðan var erfitt að ganga á mosanum, þar sem hætta er á að togna. Loks var ég í strigaskóm í stað gönguskóa, en að öðru leyti mjög vel klæddur,“ segir Engill.

Stórbrotin sýn

Hann komst að eldgosinu í Geldingadal laust fyrir miðnætti.

„Maður notaði bjarmann frá gosinu sem leiðarljós á leiðinni upp. Síðan sér maður ekkert fyrr en maður kemur fótgangandi að dalnum. Þá er maður eiginlega alveg kominn að sjálfu gosinu og þá allt í einu sér maður sjónarspilið mjög hratt,“ segir Engill.

„Það er stórbrotin sýn og án vafa það fallegasta sem ég hef séð nátturukyns þó að ég hafi nú séð ýmislegt. Þetta minnti svolítið á Hringadróttinssögu því að ég kom að í myrkri og eina ljósið á staðnum var skínandi ljóminn frá hrauninu.“

Eldarnir í nótt.
Eldarnir í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meiri áhætta að keyra Reykjanesbrautina

Fjöldi fólks var í fjallinu í nótt og Engill telur að á annan tug göngugarpa hafi verið á leiðinni upp fjallið á sama tíma og hann í nótt. Hann slóst í för með þremur Pólverjum sem voru þarna í sömu erindagjörðum.

Engill mátar nýjustu ljóðabók sína við hrauntungurnar, en hún er …
Engill mátar nýjustu ljóðabók sína við hrauntungurnar, en hún er önnur bókin sem hann gefur út. Ljósmynd/Aðsend

Ekki allir hætta sér ofan í sjálfan dalinn en það gerði Engill, eins og sést berlega á ljósmyndunum af honum. Hann segir að vindáttin hafi verið hagstæð. Björgunarsveitarmenn eru á staðnum en skipta sér ekki af fólk nema sérstök ástæða sé til, eins og reyndar í tilfelli Engils.

„Þegar ég fór alveg að hrauninu og það var innan við hálfur metri á milli mín og þess, komu tveir björgunarsveitarmenn og ráðlögðu mér mjög vinsamlega að vera ekki alveg svona nálægt því,“ segir Engill.

Hann var þó að eigin mati ekki í hættu á staðnum. „Ég hafði lesið mér til um aðstæður áður en ég lagði af stað og eftir að hafa komið þangað lít ég satt best að segja á það sem meiri áhættu að aka Reykjanesbrautina en að ganga upp að þessu virka eldgosi,“ segir Engill.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert