Ekki er útlit fyrir að gasmengun frá eldstöðvunum í Geldingadal komi til með að hafa veruleg áhrif á líðan og heilsu íbúa á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu næstu daga, en veður, vindátt og magn mengunarefna frá eldstöðvunum hafa áhrif á dreifingu og styrk gasmengunar.
Veðurstofa Íslands hefur útbúið spálíkan sem spáir fyrir um líklega dreifingu og styrk gasmengunar. Spárnar eru uppfærðar tvisvar á dag á heimasíðu Veðurstofu.
Finni fólk fyrir brennisteinslykt sem það telur koma frá eldgosinu er það beðið að skrá slíkar upplýsingar í sérstakt skráningarform á vef Veðurstofunnar.