„Eldgosið er mikið sjónarspil og þótt gönguferð dagsins væri erfið var hún algjörlega þess virði,“ segir Jóhann Björgvinsson verkfræðingur. Hundruðir fólks - ef ekki fleiri – lögðu land undir fót í dag til að sjá eldgosið í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Margir lögðu bílum sínum við Grindavíkurveg nærri Svartsengi og gengu þaðan um hraunin til austurs. Aðrir fóru að gosstöðvunum af Suðurstrandavegi, það er frá bænum Hrauni skammt austan við Grindavík.
„Leiðin frá suðurströndinni er væntanlega mun þægilegri og styttri. Við förum hana næst; mig langar líka til þess að sjá eldgosið í myrkri,“ segir Jóhann sem þarna var á ferð með Rut Kristinsdóttur konu sinni og Ýri dóttur þeirra.
„Það var ofsalega gaman að ganga þarna um hraunin í dag, vonandi bara skila sér allir heilir á húfi til baka. Að ganga þessa leið eru samtals um 20 kílómetrar og hætta á því að einhverjir vanmeti að þetta getur verið erfitt.“
Jóhann segist hafa gaman af jarðfræði og velta fyrir sér fyrirbærum náttúrunnar. Ómögulegt sé þó að segja neitt um hver framvinda gossins verður, nema hvað náttúruöflin finni sér alltaf farveg.
„Jarðfræði og hagfræði svipar svolítið saman; að óvissuþættirnir eru margir og málin taka oft óvænta stefnu. En stóra málið er kannski að nú nær fólk að hreyfa sig og fara í langar gönguferðir, sem veitir kannski ekki af eftir kóvitið.“
„Ómótstæðilegt. Að fá stórkostlega sýningu svona rétt við borgarmörkin og geta komist á staðinn er eitt af því sem gerir Ísland svo stórkostlegt. Þessi dagur mun lifa lengi í minningunni,” segir Dagný Hinriksdóttir. Morgunblaðið hitti Dagnýju og Friðbert Darra son hennar þegar þau náðu aftur til baka á bílstæðin við að hafa litið á eldstöðina.
„Loksins fékk fólkið í landinu eitthvað nýtt til þess að hugsa um, en síðasta árið hefur kórónuveiran verið mál málanna og átt sviðið. Í dag voru hundruð fólks við gíga og gosið í Fagradalsfjalli. Þetta var eins og útihátíð, og kannski verður þetta sú eina þannig sem við fáum í ár. En þarna var fólk með dróna, myndavélar og einna að spila á gítar,“ segir Dagný:
„Sumir voru auðvitað ekkert sérstaklega vel útbúnir en ég vona samt að allir komist til baka heilir a húfi. Að vera alveg við gíginn þar sem hraunið vellur fram grípur mann sterkum tökum. Ég var í miklu meiri nálægð við gosið þarna, en þegar ég fór á Fimmvörðuháls um árið þegar Magni og Móði, gígarnir þar, spruttu upp úr jörðinni,“ segir Dagný. Bætir við að freistandi sé að fara aftur að eldstöðinni, þá við aðra aðstæður
„Veðurspáin fyrir þriðjudaginn er góð. Mig langar að sjá eldgosið í myrkri með öllum sínum rauðu glóðum,” segir Dagný