Ljósmyndarinn og athafnamaðurinn Björn Steinbekk hefur verið iðinn við að mynda eldgosið í Geldingadal austan í Fagradalsfjalli í dag, en til verksins notar hann dróna. Hefur hann meðal annars flogið drónanum yfir gossprunguna og horft niður í auga gosflaumsins.
Sjón er sögu ríkari, en í meðfylgjandi myndskeiði má sjá drónamyndir sem sýna svæðið bæði í björtu og myrkri og er ekki hægt að segja annað en fegurðin sé dáleiðandi. Almannavarnadeild biðlar þó til þeirra sem hyggjast fara að gossvæðinu að fara gætilega, ýmsar hættur leynist á svæðinu.