Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu í nótt við að vekja sofandi einstakling sem bílstjórinn náði ekki að vekja, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá var einnig óskað eftir aðstoð lögreglu í gærkvöldi vegna einstaklings á veitingastað í miðbænum sem svaf ölvunarsvefni og hallaði sér fram á borð. Viðkomandi var vakinn af lögreglu áður en hann hélt sína leið. Þá var lögregla kölluð út vegna ölvaðs einstaklings á stigagangi fjölbýlishúss og var honum vísað út að beiðni íbúa.
Snemma í gærkvöldi var tilkynnt um fjögurra bíla umferðaróhapp. Þurfti að fjarlægja þrjár bifreiðar með dráttarbifreið, en enginn var fluttur á slysadeild. Einn ökumannanna er grunaður um ölvunarakstur.
Nokkur fjöldi ökumanna var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá voru skráningarmerki tekin af tíu bifreiðum þar sem þær höfðu ekki verið færðar til skoðunar eða eigendur höfðu ekki staðið skil á vátryggingu.
Þá sinnti lögregla rúmlega tíu útköllum vegna samkvæmishávaða í heimahúsi víða á höfuðborgarsvæðinu.