Aðeins hafa rúmlega 200 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti í dag. Þótt það sé vissulega mikið er það lítið í samanburði við það sem var áður en fór að gjósa á Reykjanesskaga. Dagana fyrir gos mældust að jafnaði 2-3 þúsund skjálftar á dag og voru þeir langflestir við Fagradalsfjall. Stærsti skjálftinn í dag varð laust eftir klukkan tvö í nótt og var 3,2 að stærð.
Sérfræðingur á Veðurstofu Íslands staðfestir þetta við mbl.is og segir að skjálftum hafi snarfækkað frá því fyrir gos. Staðan á gosinu sjálfu sé óbreytt, engir nýir gígar hafi enn myndast og órói á svæðinu ekki mikill.
Veðrið við gossvæðið hefur farið versnandi með kvöldinu og er þar nú hvassviðri og úrkoma. Enn er spáð leiðindaveðri á svæðinu í nótt og er jafnvel búist við snjókomu og éljagangi.
Almannavarnir hafa ráðið fólki frá því að gera sér ferð að gossvæðinu í Geldingadal í kvöld og nótt vegna versnandi veðurs.