Smit um borð í flutningaskipi í Reyðarfirði

Skipið Taurus Confidence kom í gær til Reyðarfjarðar.
Skipið Taurus Confidence kom í gær til Reyðarfjarðar.

Taurus Confidence, súrálsskip með 19 manna áhöfn, kom til Reyðarfjarðar í gær frá Sao Luis í Brasilíu. Skipið lagði að Mjóeyrarhöfn við álver Fjarðaáls og hafa tíu manns úr áhöfninni greinst með Covid-19-smit.

Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi að skipstjóri skipsins hafi fyrir komu skipsins til hafnar upplýst að sjö í áhöfninni væru veikir. Að fenginni einkennalýsingnu og öðrum faraldursfræðilegum þáttum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni, sem náðist undir kvöld í gær. Sem fyrr segir greindust tíu smitaðir.

Aðgerðastjórn og umdæmislæknir sóttvarna í samvinnu við umboðsmann útgerðarinnar og skipstjórann hafa gefið leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir um borð. Læknisfræðilegt eftirlit með skipverjunum verður unnið samkvæmt fyrirliggjandi vinnureglum þar um af Covid-deild Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Aðgerðastjórn telur ekki hættu á að smitið dreifi sér. Hinir smituðu eru allir í einangrun um borð og aðrir í sóttkví. Hefur svo verið frá komu skipsins til hafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert