Það er mikilvægt að hlúa að sjálfum sér þrátt fyrir að álagið í starfinu geti verið yfirþyrmandi. Þetta eru þau skilaboð sem fjárfestar hafa gefið Stefaníu Ólafsdóttur, forstjóra Avo, sem spilar á gítar á hverjum degi til að kúpla sig út úr álaginu sem fylgir því að leiða alþjóðlegt fyrirtæki.
Stefanía stofnaði Avo ásamt Sölva Logasyni en fyrirtækið hefur vakið mikla athygli að undanförnu og ekki að ósekju. Tekjur þess tífölduðust, þreföldun varð á starfsmannateymi þess og notkun núverandi viðskiptavina á hugbúnaði Avo jókst um ríflega 200% á síðasta ári.
Fyrirtækið á rætur sínar í rússíbanareiðinni í kringum Quiz Up-spurningaleikinn á síðasta áratug og var stofnað af lykilstarfsfólki í hugbúnaðarteymi Plain Vanilla þegar ævintýrið í kringum leikinn var á enda. Avo hefur nú starfsstöðvar víða um heim og þjónustar stór alþjóðleg fyrirtæki á borð við bandaríska gítarframleiðandann Fender.
Í myndskeiðinu er brot úr spjalli hennar við Björt þar sem hún segir frá mikilvægi þess að slíta sig frá daglegu amstri endrum og eins. Þátturinn í heild er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins hér en einnig er hægt að kaupa vikupassa.