Stórhættulegt að ferðast að gossvæðinu í kvöld

Frá gosstöðvunum í nótt.
Frá gosstöðvunum í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnir ráða fólki frá því að ferðast um gossvæðið í Geldingadal í kvöld vegna veðurs. Það eru skýr fyrirmæli þeirra að fólk haldi sig frekar heima. Með kvöldinu á að hvessa og gert er ráð fyrir úrkomu og súldarveðri og í nótt má gera ráð fyrir snjókomu og éljagangi. 

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir við mbl.is að fólki sé ráðið frá því að fara að gossvæðinu í kvöld og nótt. Hann segir að viðbragðsaðilar hafi staðið í ströngu við að aðstoða fólk á svæðinu, sem kemur illa búið og örmagnast. Tilfellin eru ófá. 

Mun verri aðstæður að skapast

„Nei, alls ekki. Þau eru fleiri en það,“ segir Rögnvaldur spurður hvort það sé teljandi á fingrum annarrar handar hve oft viðbragðsaðilar hafa þurft að aðstoða og leiðbeina fólki á svæðinu. 

„Sumir þarna eru illa skóaðir og illa búnir almennt. Svo eru margir illa nestaðir og ekki með neitt vatn með sér og örmagnast því fljótt. Mjög margir eru ekki með neinn ljósbúnað með sér eða gps-tæki og það er mjög slæmt þegar fer að dimma. 

Þannig að það eru skýr tilmæli ykkar til fólks að vera ekki að gera sér ferð að gosstöðvunum í kvöld og nótt?

„Já, algjörlega.“

Veðrið á svæðinu hefur verið ágætt síðan gosið hófst að sögn veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Hann segir við mbl.is að algjör umskipti verði þó á því í kvöld. Miðað við þær ógöngur sem margir vegfarendur virðast hafa lent í á meðan veðrið var gott má leiða að því líkur að aðstæður á svæðinu verði mun verri í kvöld og nótt. 

Þá á skyggnið á svæðinu að versna í kvöld og verður því minna að sjá, að sögn Rögnvalds. 

Útihátíðarástand

Rögnvaldur segir að fjölmargir hafi lagt leið sína að gosinu að undanförnu. Viðbragðsaðilar töldu bíla á svæðinu í gær, við Bláa lónið og í Grindavík, og skiptu þeir hundruðum. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur nú lokað afmörkuðu svæði næst gosstöðvunum, þar sem mest hætta er á því að brotni úr gígnum.

Bílar í námunda við Grindavík, þar sem blaðamaður mbl.is er …
Bílar í námunda við Grindavík, þar sem blaðamaður mbl.is er staddur. mbl.is/Sigurður Bogi

Margir hafa lagt bílum sínum ógætilega á bílastæðum við þær gönguleiðir sem liggja upp að gossvæðunum. Blaðamaður mbl.is er á svæðinu og ræddi við fólk sem var á leið sinni til baka frá gosstöðvunum 

Fólk sem er að koma til baka segir að ferðin taki 5-6 klukkustundir. Láta þeir að því liggja að þeir sem séu að fara af stað núna geti lent í vandræðum þar sem leiðin sé erfið og kalt og hvasst veður. Þeir sem eru því að leggja af stað núna gætu verið að koma til baka milli 9 og 10 í kvöld og verður þá spáin farin að versna enn frekar auk þess sem það verður orðið dimmt.

Þeir sem blaðamaður ræddi við sem voru að koma til baka sögðust hafa séð fólk snúa við og aðra sem hefðu lent í vanda og verið við það að missa móðinn á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert