Verða með vakt við gosstöðina í alla nótt

Björgunarsveitir gera ráð fyrir að fólk muni áfram fara inn …
Björgunarsveitir gera ráð fyrir að fólk muni áfram fara inn að eldstöðinni í nótt þrátt fyrir slæma spá og virkan vinnudag á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitthvað hefur verið um að fólk sem fór að líta eldstöðina í Geldingadal augum í dag hafi komið hálförmagna til baka. Í einhver skipti hafa björgunarsveitir þurft að aðstoða fólk síðasta spölinn til baka og í eitt skipti var ferðalangur á leið til baka fluttur með sjúkrabifreið. Þetta segir Steinar Þór Kristinsson í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurnesjum.

3-4 hópar að athuga gönguleiðir

Björgunarsveitir voru kallaðar út fyrr í kvöld til að athuga með fólk á þekktum gönguleiðum að gosstöðinni. Steinar segir að 3-4 hópar séu núna úti. Þá verði björgunarsveitafólk einnig við gosstöðina í nótt, en hann á von á einhverjum fjölda gesta þar bæði í nótt og á morgun.

Langur dagur er að baki hjá björgunarsveitum á svæðinu, en Steinar segir að vaktaskipti séu nú í gangi og ferskur hópur að taka við. Veðurspáin fyrir nóttina er ekkert mjög spennandi og þá er virkur dagur á morgun. Steinar segir að þrátt fyrir það megi búast við einhverjum fjölda inn að gosstöðinni þar sem fjölmargir hafi verið í vaktavinnu um helgina og horfi núna til þess að sjá gosið.

Miðað við þann fjölda fólks sem hefur gengið inn að gosstöðinni segir Steinar að dagurinn hafi í heild gengið vel og að lítið hafi verið um meiðsli eða að fólk örmagnist. Þá segir hann að í langflestum tilfellum komist fólk sjálft til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert