Aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu

Alvarleg afbrigði fuglaflensu hafa greinst í vetrarheimkynnum íslenskra farfugla. Þau …
Alvarleg afbrigði fuglaflensu hafa greinst í vetrarheimkynnum íslenskra farfugla. Þau eru þó ekki talin hættuleg mönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið á Íslandi. Allir fuglar í haldi þurfa nú tímabundið að vera hafðir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn, eða í fuglaheldum húsum. Þá skulu sóttvarnir viðhafðar til að hindra smit frá villtum fuglum í alifugla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun þar sem enn fremur er hvatt til þess að allir sem halda alifugla skrái fuglahald sitt í gegnum þjónustugátt á vef stofnunarinnar.

Ekki talið hættulegt mönnum

Tilefni þess er mikil útbreiðsla fuglaflensu í Evrópu í vetur en alvarleg afbrigði hennar hafa meðal annars greinst á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig á að vetri til. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar; stór hluti fugla getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem flensan greinist á.

Ekki er þó talin vera mikil smithætta fyrir fólk af þessum afbrigðum og ekki stafar smithætta af neyslu afurða alifugla.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tímabundnar varnaðaraðgerðir til að fyrirbyggja að flensan berist í alifugla. Auk þess fyrrnefna er þar kveðið á um að sýningarhald og aðrar samkomur með fugla séu bannaðar, öllum óviðkomandi sé bannaður aðgangur að fuglahúsum og að ekki skuli flytja fugla á milli staða nema vitað sé að heilsufar fugla á báðum stöðum sé gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert