Ekki hefur tekist að hafa uppi á eigendum mannlausrar bifreiðar á erlendum númerum sem er við gönguleiðina að gosstöðvunum í Geldingadal.
Uppfært - Eigandi bifreiðarinnar er kominn fram.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að ekki sé vitað hvort fólkið sé á svæðinu eða hafi komið sér með öðrum hætti í burtu. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á tíunda tímanum í morgun til að fljúga yfir gossvæðið. Eins eru björgunarsveitir við leit á svæðinu en þessi eftirgrennslan hefur ekki enn skilað árangri.
Hann segir að ekki sé vitað hversu lengi bíllinn hefur verið þarna en mjög slæmt veður er á þessum slóðum.
Vel hefur gengið að halda fólki frá gossvæðinu í morgun en illa gekk að halda fólki frá í gærkvöldi og í nótt þrátt fyrir að veðurspáin væri slæm og gangan torfær.
Neyðarástand myndaðist á svæðinu í kringum eldgosið í nótt. Bjarga þurfti fólki sem hafði örmagnast og flytja það af vettvangi með sjúkrabifreiðum. Farið var með 38 manns í fjöldahjálparstöð í Grindavík.