Enn eru ekki allir komnir fram sem leitað var að í nótt og snemma í morgun á leiðinni að eldgosinu í Geldingadal. Almannavarnir hafa lokað svæðinu við gosstöðvarnar enda gasmagnið lífshættulegt.
Uppfært klukkan 9:05 Þyrla Landhelgisgæslunnar er á flugi yfir gossvæðið til að grennslast fyrir um fólk sem hefur ekki skilað sér í bílinn. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að beiðnin hafi komið frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og þyrlan hafi farið í loftið klukkan 8:25. Hún er á sveimi yfir gossvæðið, frá Svartsengi að Geldingadal.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að enn séu einhverjir bílar á svæðinu en upp úr sex í morgun var mesti kúfurinn af fólki farinn af svæðinu. Björgunarsveitir og lögregla eru enn að leita af sér allan grun en enn stendur einn bíll út af og reynt að hafa upp á eiganda hans segir Davíð í samtali við mbl.is.
Aðgerðir eru enn í gangi og var tekin sú ákvörðun snemma í morgun að loka svæðinu af vegna hárra gilda sem mældust við gasmælingar í nótt. „Við mælingar í morgun kom í ljós að gasmengun er á svæðinu og er mælingin komin upp fyrir hættumörk. Svæðið við gosstaðinn er því lokað og er fólk beðið um að virða þá lokun. Mjög hættulegt er að nálgast gosið eins og er,“ segir í viðvörun frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Afar slæmt veður er á þessum slóðum og gul viðvörun í gildi
Þrátt fyrir það er enn verið að stöðva fólk sem ætlar sér að skoða eldgosið þrátt fyrir viðvarnir almannavarna. Gular veðurviðvaranir eru í gildi á Suðurlandi og við Faxaflóa og gilda þær til klukkan 2 aðfaranótt þriðjudags. Suðvestanhvassviðri eða -stormur, 15-23 m/s, hvassast á Reykjanesi síðdegis. Dimm og byljótt slyddu- eða snjóél og slæmt skyggni, hviður um 30 m/s. Ekkert útivistarveður.
Björgunarsveitafólk hefur vaktað gosstöðvarnar og gönguleiðirnar að þeim frá því snemma í gær og komið fólki til aðstoðar. Í gærkvöldi fjölgaði verkefnum björgunarsveitarmanna töluvert og hefur tugum einstaklinga verið komið til aðstoðar frá því síðdegis í gær. Meirihluti þeirra sem þurfa aðstoð eru örmagna eftir langa göngu, eitthvað hefur verið um smávægileg slys og nokkrir hafa villst af leið.