Björgunarsveitin Þorbjörn segir að eldgosið í Fagradalsfjalli hafi verið flókið verkefni á óaðgengilegum stað. Nú sé þó búið að ná betur utan um það og gengið hefur vel í aðgerðum í dag. Fólk skiptist á að sofa og vaktirnar eru langar.
Síðdegis í dag fór 10 manna hópur frá sveitinni í stikuferð upp á Fagradalsfjall í brjáluðu veðri og í kvöld lauk því verkefni. Nú er hægt að ganga stikaða slóð frá Suðurstrandarvegi að gosstöðvunum og tekur um eina og hálfa klukkustund fyrir vel búið fólk að ganga þá leið, sem er um 3,5 km og sjö kílómetrar fram og til baka.
„Á meðan við höfum verið að ná utan um ástandið hefur fólk í þúsundatali lagt leið sína á svæðið. Okkur þykir það mjög skiljanlegt og við vildum að við gætum tekið betur á móti öllum. Í gærkvöldi fór svo allt í skrúfuna og fólki gekk illa að komast frá eldgosinu sem endaði með fjölda örmagna fólks sem þurfti á aðstoð okkar að halda,“ segir í tilkynningu frá björgunarsveitinni á Facebook.
Í færslunni er ítrekað að björgunarsveitin er öðrum viðbragðsaðilum aðeins til halds og trausts sem sjálfboðaliðar, en tekur ekki ákvarðanir um lokanir eða skilgreind hættusvæði.